Hæstiréttur Noregs hefur dæmt með minnsta mögulega mun, níu atkvæðum gegn átta, að ríkinu sé heimilt að breyta ótímabundnum sameinuðum fiskikvótum í tímabundna með afturvirkum hætti. Það brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.
Tore Roaldsnes stjórnarformaður Samtaka norskra útvegsmanna (Fiskebåt) harmar þessa niðurstöðu og telur afturvirkni af þessu tagi stríða gegn réttarvitund flestra. Hann segir ennfremur á vefsíðu samtakanna að óheppilegt sé, bæði fyrir ríkið og fyrir útvegsmenn og atvinnugreinina í heild, að dómurinn skuli komast að þessari niðurstöðu með svona naumum meirihluta.
Nýmynduð ríkisstjórn Hægri fokksins og Framfaraflokksins í Noregi hefur það á stefnuskrá sinni að leggja að því grunn að sameinaðir fiskikvótar verði ótímabundnir. Elisabeth Aspaker sjávarútvegsráðherra segir jákvætt að fengist hafi úrskurður um hinn lagalega ramma í því efni.