Samningur á milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu fyrir árið 2022 kom til kasta þingsins í vikunni, en efni samningsins er samhljóða þeim sem gilti fyrir árið 2021.
Samningurinn kveður á um að íslenskum skipum verður heimilt að veiða allt að 1.300 tonn af makríl innan færeyskrar lögsögu, en ákveðið hefur verið að færeyskum skipum verði heimilt að veiða 5.600 tonn af botnfiski við Ísland. Þó verði heildarafli þorks ekki meiri en 2.400 tonn og keilu ekki meiri en 400 tonn, en engar veiðar eru heimilar á lúðu og grálúðu.
Eins og undanfarin ár fór hið árlega samráð milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands og sjávarútvegsráðherra Færeyja ekki fyrr en nú í desember, en þjóðirnar samþykktu jafnframt að ljúka á næstunni vinnu við að breyta fyrirkomulagi þessara viðræðna þannig að gerður yrði rammasamningur til lengri tíma.
Íslensk stjórnvöld eru núna að „vinna að því að komast út úr þessu fyrirkomulagi að vera alltaf að koma með samning korter fyrir jól fyrir næsta ár,“ að því er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sagði á þingi á mánudag, þegar hún mælti fyrir þingsályktun um samninginn.
„Við vorum að vona að við gætum farið í gegnum hið nýja fyrirkomulag hvað það varðar fyrir þessi jól, en það tekur lengri tíma þannig að við munum vonandi klára það á fyrrihluta næsta árs þannig að það verður alla vega komið í annan farveg.“