Framkvæmdir eru hafnar af fullum krafti við uppbyggingu nýrrar landeldisstöðvar á vegum fyrirtækisins Landeldis ehf. í Þorlákshöfn. Unnið er hörðum höndum að fyrsta áfanga stöðvarinnar með 2.500 tonna framleiðslu en í beinu framhaldi verður framleiðslan aukin upp í 5.000 tonn af fullvaxta laxi eins og leyft er samkvæmt núverandi umhverfismati.
Forsvarsmenn Landeldis stefna þó enn hærra eða á um 32.500 tonna ársframleiðslu í framtíðinni og er leyfisferli þegar hafið fyrir til að stækka eldið enn frekar upp í 20.000 tonna framleiðslu á ári.
Landeldi stefnir þannig á að vera með þeim fyrstu sem framleiða lax á landi í stórum stíl í heiminum. Áframeldið byrjar á næsta ári og árið 2023 stefnir fyrirtæki á nokkurra þúsund tonna framleiðslu undir vörumerkinu Deep Atlantic Salmon.

- 5.000 tonna landeldi geti skapað 50 bein störf og um 25 önnur í tengdum greinum. Aðsend mynd
Að baki Landeldi stendur hópur innlendra fjárfesta. Nýlega bættust fjárfestingafélagið Stoðir hf. í hluthafahópinn og eiga 32,9% hlut á móti 52% hlut sem er í eigu stofnenda Landeldis og starfsmanna. Alls er áætlað að verkefnið kosti a.m.k. 15 milljarða króna.
„Haustið 2020 keypti Landeldi seiðastöð við Hveragerði og því er félagið komið vel á veg með seiðaeldið. Seiðaeldið hófst fyrir tæpu ári síðan og eigum við nóg af seiðum til að flytja í áframeldið í Þorlákshöfn strax á fyrri hluta næsta árs,“ segir Halldór Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður Landeldis.
Önnur vara en lax úr sjókví
Halldór Ólafur segir við uppbyggingu verkefnins sé samanburður við sjókvíaeldi ekki raunhæfur en fremur sé litið til þess sem er að gerast hjá öðrum landeldisstöðvum í heiminum.
„Áframeldi á laxi á landi er ung nýsköpunargrein og er mjög mismunandi hvernig fyrirtækin nálgast viðfangsefnið. Okkar nálgun er einfaldleiki í hönnun, lágur fjárfestingakostnaður án þess að nokkuð sé vikið frá umhverfiskröfum og framleiðsla á vöru í hæsta gæðaflokki sem er holl og heilnæm. Við teljum að lax sem alinn er á landi verði skilgreindur í náinni framtíð sem önnur vara en lax úr sjókvíum. Við erum strax farin að sjá merki um umtalsvert hærri verð á laxi úr landeldi vestanhafs og í Evrópu en á laxi úr sjókvíaeldi, þótt framboðið sé enn lítið á heimsvísu. Lax úr landeldi er undir 0,5% af heildarframleiðslu á eldislaxi. Það mun taka mörg ár að ná 5 til 10% af markaðnum og áskoranirnar eru margar. Við Íslendingar erum í kjörstöðu vegna hagstæðra aðstæðna að taka myndarlega þátt í vexti landeldis á laxi í heiminum og þannig búa til öfluga útflutningsgrein á Íslandi,“ segir Halldór Ólafur.
Einstæðar aðstæður á heimsvísu
Hann segir að fyrstu verkefnin í heiminum sem stefna á landeldi á laxi í stórum stíl séu að verða að veruleika núna. Öll glími þau við mismunandi áskoranir sökum landfræðilegra aðstæðna og þeirra aðfanga og aðstæðna sem eru á hverjum stað fyrir sig. Verkefnin sé innbyrðis mjög ólík.
„Aðstæður í Þorlákshöfn eru einstakar á Íslandi og þar af leiðandi á heimsvísu. Ástæðan er fyrst og fremst gott aðgengi að jarðsjó sem síast í gegnum berglögin. Þaðan getum við tekið mikið magn af jarðsjó á sjálfbæran hátt. Aðra jákvæða þætti sem mætti nefna er aðgengi að fersku vatni, umhverfisvænu rafmagni, rafmagnsöryggi og nálægð við höfnina í Þorlákshöfn. Á Íslandi er einnig mikil reynsla í landeldi á bleikju sem er verðmæt reynsla.“

- Lax úr landeldi er undir 0,5% af heildarframleiðslu á eldislaxi. Aðsend mynd
Ljóst er að landeldisstöðin hefur mikil áhrif á atvinnustig í sveitarfélaginu þegar hún kemst í rekstur. Bent hefur verið á að 5.000 tonna landeldi geti skapað 50 bein störf og um 25 önnur í tengdum greinum.
„Við áætlum að starfsmannafjöldi verði kominn yfir 100 að nokkrum árum liðnum. Atvinnusvæði Landeldis er nú á 27 hektara svæði í Þorlákshöfn og 7 hekturum í Hveragerði. Áætlanir okkar miða að því að ala um 32.500 tonn af laxi á ári í framtíðinni. Að því sögðu er eðli stórra nýsköpunarverkefna óvissa og til að markmiðin náist verður samspil margra þátta að ganga upp,“ segir Halldór Ólafur.
Verðmæti í seyrunni
Landeldi ehf. er stofnaðili að þekkingasetrinu Ölfus Cluster sem hefur það að markmiði að stuðla að samvinnu og hringrásarhagkerfi á svæðinu. Í tengslum við það hefur fyrirtækið undirritað samning um þáttöku í uppgræðslu á landsvæði nærri Þorlákshöfn sem gengur undir nafninu Þorláksskógar. Þá fer hluti jarðvegs úr framkvæmdum á lóðum Landeldis í nýjan hafnargarð sem fyrirhugað er að reisa í Þorlákshöfn.
Halldór Ólafur segir það yfirlýsta stefnu Landeldis að taka öll þau grænu og vistvænu spor sem fyrirtækinu er mögulegt að taka.
„Í því sambandi leitum við leiða til að nýta seyru frá eldinu í áburð og mögulega til annara nytsamlegra þarfa. Þjóðhagslega væri mikið unnið ef unnt væri að draga úr innflutningi á áburði til Íslands með því að nýta seyruna í hringrás innan Íslands. Við höfum varið töluverðum fjármunum í rannsóknir í þessum efnum og lítum á seyruna sem verðmæti. Laxeldi Landeldis er án allrar efna- eða hormónagjafar og laxinn er alinn í hreinu og tæru umhverfi. Þá er engin hætta á því að lax úr eldinu sleppi í sjó við Íslandsstrendur. Niðurstaðan er hágæða vara, alin á umhverfisvænan hátt, sem við finnum fyrir að mikil eftirspurn er eftir.
Í allar verslanir Haga á næsta ári
Landeldi greindi frá því í september að fyrirtækið hefði samið við Haga hf. um sölu á afurðum Deep Atlantic í öllum verslunum Haga á Íslandi. Um er að ræða hágæða laxaafurðir, flök eða aðrar unnar afurðir. Sala í verslunum Haga hefst í desember 2022.
Í fréttatilkynningu Landeldis segir að það mikinn heiður að fá strax slíkt brautargengi innanlands. Hagar er stærsta keðja smásöluverslana á Íslandi og rekur þar 38 Hagkaups- og Bónusverslanir.