Verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt lækkaði um 5,2% í febrúar síðastliðnum, samkvæmt tölum IFS Greiningar. Þar með hefur afurðaverð lækkað í átta mánuði í röð. Síðustu sex mánuði hefur afurðaverð lækkað um 16,6% mælt í erlendri mynt.
Hagstofan birti fyrir helgina tölur um afurðaverðið í íslenskum krónum en IFS Greining hefur reiknað verðið í erlendri mynt m.v. helstu útflutningsmyntir. Eftir þessa lækkun er afurðaverð álíka hátt og í upphafi árs 2006. Þessi mikla og stöðuga lækkun á afurðaverði hefur verið í takt við þróun á öðrum hrávörum.
Nú síðustu vikur hefur þó verð á ýmsum hrávörum tekið að hækka á ný, eða a.m.k. náð meiri stöðugleika en verið hefur um nokkurt skeið. Verð á fiskimjöli frá Perú hefur t.a.m. hækkað um 6,5% á árinu mælt í USD.
Ekki er að sjá að dragi úr lækkunarhraða í verði sjávarafurða enn sem komið er og spurning um það hvernig þróunin verður næstu mánuði.
Afurðaverð í ISK hátt
Vegna veikrar stöðu krónunnar er afurðaverð enn hátt mælt í ISK. Vegna þessa er framlegð í íslenskum sjávarútvegi góð. Á móti kemur að skuldir sjávarútvegsfyrirtækja eru háar vegna erlendra skulda. Þar sem mikil áhersla er hjá erlendum kaupendum um aðhald í birgðum skiptir miklu máli fyrir íslenska aðila að hafa sterkar söluleiðir og traust sambönd, segir IFS Greining.