Afli norskra uppsjávarskipa var ekki mikill í síðustu viku, að því er fram kemur á vef Norges Sildesalgslag, en áfram er greitt metverð fyrir kolmunna til manneldis.
Aðeins tveir norskir bátar lönduð kolmunna í síðustu viku og veiddu rúmlega 1.000 tonn. Aflinn fékkst á alþjóðlegu hafsvæði suður af Rockall. Mikill áhugi er á því að fá kolmunna til vinnslu til manneldis og fór verðið í rúmar 5 krónur norskar á kílóið, eða um 103 krónur íslenskar.
Lítil síldveiði var í vikunni og veður hamlaði loðnuveiðum. Aðeins veiddust 14 þúsund tonn af loðnu og þar af fóru 11.300 tonn í bræðslu og 4.400 tonn í manneldisvinnslu. Miðað við verð á loðnu fyrr á vertíðinni var verð tiltölulega lágt í síðustu viku. Fyrir loðnu sem landað var til manneldisvinnslu var verðið 1,85-2,71 NOK (38-56 ISK). Meðalverðið var 2,29 NOK (47 ISK). Verð til bræðslu var að meðaltali 1,77 NOK (36 ISK).