Uppsjávarskipið Víkingur AK 100 frá Brimi kom á miðin á Gráa svæðinu suður af Færeyjum á mánudaginn. Þegar rætt var við Albert Sveinsson fyrir hádegi í gær, þriðjudag, voru komin 570 tonn af kolmunna um borð.
„Það gengur alveg ágætlega, búin að vera fín veiði hjá bátunum hérna og þarf ekki að draga svo lengi,“ svaraði Albert spurður um veiðina.
Áfram heldur því að saxast á kolmunnakvóta íslensku skipanna sem eins og undanfarið eru mörg á Gráa svæðinu.
Við lögsögumörkin
„Við erum eiginlega alveg syðst á svæðinu, alveg á lögsögumörkunum við Skotland á köflum,“ sagði Albert um staðsetningu Víkings AK.
Kolmunnann sagði Albert virðast vera hinn fínasta fisk. „Hann er að koma hérna sunnan að og fer síðan áfram norður eftir. Hann er búinn að vera í hrygningunni suður af Rockall og er svo að koma norður eftir í æti,“ sagði Albert sem aðspurður kvaðst ekki enn sjá fyrir endann á veiðinni suður af Færeyjum. „Nei, veiðin hlýtur að vera eitthvað áfram hér á þessu svæði alveg út þennan mánuð og fram í næsta.“
Þrjátíu tíma sigling
Víkingur landar á Vopnafirði og þangað er löng leið. Albert sagði það vera um þrjátíu klukkutíma siglingu, um það bil 420 sjómílna leið sem þangað er. Viðrað hafði sæmilega á svæðinu en í það stefndi að sögn Alberts að bæta myndi í vind er kæmi fram á kvöldið. Það væri þó ekki svo slæmt að til vandræða yrði.Albert kvað erfitt að segja til um hversu langur túrinn yrði. „Við erum bara nýlega byrjaðir, erum komnir með 570 tonn og okkur vantar tvö þúsund tonn um borð,“ sagði skipstjórinn.