IS Haf fjárfestingar undirrituðu í gær fjárfestingasamning við Thor Landeldi ehf., en síðarnefnda félagið áformar uppbyggingu á tuttugu þúsund tonna laxeldi í Þorlákshöfn. Frá þessu er sagt á vef Viðskiptablaðsins.
Um er að ræða þátttöku sjóðsins í hlutafjáraukningu, sem færir sjóðnum 53 prósent hlut í félaginu.
Samkvæmt tilkynningu Arctica Finance, ráðgjafa seljanda, munu norsku fjárfestarnir Frank Yri aðstoðarframkvæmdastjóri Seaborn og Alex Vassbotten, sem meðal annars er stjórnarformaður Seaborn, fjárfesta í félaginu.
Báðir eru sagðir hafa umtalsverða reynslu úr laxeldi og fjárfestingastarfsemi tengdri laxeldi. Seaborn er norskt sölufyrirtæki á laxi.
„Félagið hefur tryggt sér 20,3 hektara lóð við Laxabraut 35-41 vestan við Þorlákshöfn. Staðsetningin er afar heppileg fyrir eldi þar sem svæðið er auðugt af fersku vatni og jarðsjó sem þarf til framleiðslu á laxi á landi,“ segir í tilkynningu Arctica. Nýtt hlutafé verði nýtt til að fjármagna fyrsta áfanga eldisins sem er uppbygging á seiðaeldisstöð.
„Gangi áætlanir eftir er gert ráð fyrir að tekið verði á móti fyrstu hrognum í seiðaeldisstöðina haustið 2024,“ segir í tilkynningunni.