Bandaríska fóðurvörufyrirtækið Alltech hyggst stórauka framleiðslu á olíu úr smáþörungum til að veita hefðbundnu fiskimjöli og lýsi raunverulega samkeppni. Þetta kemur fram á vefnum undercurrentnews.com.

Alltech hefur um áraraðir framleitt fóðurvörur fyrir landbúnað og fiskeldi. Fyrirtækið rekur þörungaframleiðslu og vinnslu á olíu úr þörungunum. Framkvæmdastjóri Alltech segir að félagið vanti samstarfsaðila til að geta vaxið og boðið fiskeldisfyrirtækjum upp á annan kost en hefðbundið fiskimjöl og lýsi. Hann bendir á að aðrir kostir eins og sojaolía innhaldi ekki omega-3 fitusýru sem nauðsynlegar eru í fóður fyrir eldisfiska.

Fram kemur á undercurrentnews að fiskeldi í heiminum hafi notað rúm 772 þúsund tonn af lýsi árið 2013. Því er spáð að eftirspurnin verði um 843 þúsund tonn árið 2020.

Verksmiðja Alltech í Kentucky í Bandaríkjum framleiðir nú um 10 þúsund tonn af þörungaolíu á ári. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja að framleiða þurfi 240 þúsund tonn til að veita fiskimjöli og lýsi raunverulega samkeppni. Stækkun verksmiðjunnar krefst mikilla fjármuna en þess má geta að núverandi verksmiðja í Kentucy er metin á 200 milljónir dollara (um 24 milljarða ISK).