Ein tillaga starfshóps verkefnisins Auðlindin er sú almennur byggðakvóti verði afmuninn og veiðiheimildarnar í staðinn leigðar út. Yrði þar farin svonefnd innviðaleið.

„Það er mat starfshópsins að rétt sé að afnema almenna byggðakvótann því litlar líkur séu á því að unnt sé að sníða af honum hina ýmsu galla og gera hann árangursríkan. Í stað þess að bæta þeim heimildum sem fara nú í almenna byggðakvótann við sértæka byggðakvótann og/eða strandveiðar leggur starfshópurinn til að látið verði reyna á nýtt fyrirkomulag, meðal annars þar sem lagt er til að ekki verði gerðar breytingar á strandveiðum og sértækum byggðakvóta,“ segir í nýtkominni skýrslu.

Leigutekjurnar til sveitarfélaganna

„Þess í stað er lagt til að veiðiheimildirnar verði leigðar út til eins árs í senn og tekjurnar renni til sveitarfélaga í dreifðum byggðum, annað hvort með beinum hætti eða í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Með því gætu sveitarfélög betur stuðlað að uppbyggingu á sjálfbærum atvinnurekstri og samfélagslegum innviðum í sjávarbyggðum til framtíðar og slík uppbygging þyrfti ekki að vera bundin við sjávarútveg,“ segir í skýrslunni.

„Taki leigumarkaður við þessum viðbótarheimildum, sem búast má við, gæti heildarfjárhæð sem til ráðstöfunar væri verið 3-4 milljarðar króna, að öðru óbreyttu. Þeim fjármunum væri unnt að úthluta beint til byggðarlaga sem liggja að sjó, hafa löndunarhafnir og ákveðinn íbúafjölda,“ segir starfshópurinn.