„Þetta er jákvæt þótt auðvitað hefði verið betra að fá lengri frest,“ segir Sigurður Jökul Ólafsson, formaður Cruise Iceland, um þá ákvörðun meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að fresta afnámi tollfrelsis á skemmtiferðaskipa í hringsiglingum um Ísland um eitt ár.
Meirihlutinn segir að sé nefndinni hafi borist umsagnir frá hagsmunaaðilum þar sem hvatt var til þess að afnám tollfrelsis yrði frestað allt til til 1. janúar 2027.
Fjárhagslegt mat hafi enga þýðingu
„Í umsögnum kom jafnframt fram að framangreint fjárhagslegt mat hefði ekki farið fram og skipin hefðu jákvæð fjárhagsleg áhrif á smærri hafnir á landsbyggðinni. Nefndinni bárust jafnframt minnisblöð frá fjármála- og efnahagsráðuneyti 18. október og 6. nóvember 2024. Kom þar fram að umrætt fjárhagslegt mat hefði enga þýðingu enda væri það álit ráðuneytisins að miklar líkur væru á því að í tollfrelsi gæti falist ólögmæt ríkisaðstoð,“ segir meirihlutinn.
Þarft að afnema tollfrelsið
Þá segir að jafnframt kveði lög um virðisaukaskatt á um að innheimta beri virðisaukaskatt af sölu á öllum vörum og þjónustu innan íslenskrar skattalögsögu.
„Starfsemi þessara skipa væri ekki sérstaklega undanþegin virðisaukaskatti og með skráningu á virðisaukaskattsskrá öðlist þeir rétt til að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum til starfseminnar,“ segir meirihlutinn sem kveðst telja þarft að afnema tollfrelsi fyrir skemmtiferðaskip í innanlandssiglingu. Það hafi legið fyrir í ár að tollfrelsi væri að ljúka.
Hafa haft samkeppnisforskot
„Meirihlutinn fjallaði um það samkeppnisforskot sem skipin hafa notið gagnvart öðrum rekstraraðilum í ferðaþjónustu og um skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum, meðal annars um jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja. Í ljósi þess að sala á ferðum með þessum skipum fer oft fram með löngum fyrirvara telur meiri hlutinn rétt að gefa þeim frest til 1. janúar 2026 hvað tollfrelsi varðar,“ segir meirihlutinn sem þó einnig áréttar, og beinir því til yfirvalda og rekstraraðila þessara skipa, að þeim beri að greiða virðisaukaskatt í samræmi við lög og skrá sig á virðisaukaskattsskrá.
Ekki er hróflað við áformum um innviðagjald á farþega skipanna sem hagsmunaaðilar hafa einnig gagnrýnt og taka á upp um áramótin.