Vilhelm Þorsteinsson EA, skip Samherja, skilaði mestu aflaverðmæti íslenskra skipa á árinu 2008 eða 2.177 milljónum króna (fob). Í öðru sæti varð Hákon EA, skip Gjögurs, með litlu minni verðmæti eða 2.124 milljónir (fob). Báðir eru frystiskip á uppsjávarveiðum.

Alls fiskuðu átta uppsjávarveiðiskip fyrir meira en einn milljarð hvert á árinu 2008 og heildaraflaverðmæti uppsjávarflotans jókst um 53% milli ára.

Þetta kemur fram í úttekt Fiskifrétta sem byggir á tölum úr nýbirtri skýrslu Hagstofu Íslands. Í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag er að finna afla og aflaverðmæti allra uppsjávarskipa á árinu 2008 og samanburð við árið á undan.