Alla þessa viku og út þá næstu stendur yfir aflúsun á eldislaxi í eldisstöð Arnarlax við Laugardal í Tálknafirði. Notuð verða salmosan aflúsunarefni og slice lyfjafóður og er notkun efnanna í samvinnu við Matvælastofnun.
Salmosan er efni sem vinnur á laxalús og verður sett í kvíar í litlu magni. Það verður sett í 13 kvíar af 21 á eldissvæðinu. Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun hafa heimilað lyfjameðhöndlunina.
Hver kví verður klædd með sérstökum poka sem kemur í veg fyrir öll vatnaskipti úr kvínni, salmosan er sett út í kvíarnar og látið vera í 30-60 mínútur. Að því loknu er efnið orðið óvirt og er þá poki fjarlægður.
Getur smitast frá öðrum eldisstöðvum
Silja Baldvinsdóttir, gæðastjóri Arnarlax, segir að sótt sé um aflúsunarmeðferð til Matvælastofnunar þegar lúsaálag er farið að nálgast viðmiðunarmörk stofnunarinnar. Reynt er að forðast að grípa til þessarar meðferðar frá og með október og fram vors þegar sjórinn er hvað kaldastur og eldislax þá viðkvæmari fyrir öllum inngripum.
Í Tálknafirði eru einnig sjókvíar frá Arctic Fish. Silja segir að sé lús á öðrum eldissvæðum með straumstefnu að eldissvæðum Arnarlax geti lús gert sig heimakomna á ný. Í sjókvíum Arnarlax eru hrognkelsi sem éta lús og eru þau nokkurs konar forvörn en þau duga ekki ein og sér ef lúsaálag er mikið.

Hrognkelsi nærast á sníkjudýrinu sem veldur laxeldisfyrirtækjum hvað mestum vandræðum, lúsinni. Hrognkelsin eru í vinsamlegu samlífi með löxum í sjókvíum og eru mikilvægur hluti í baráttunni við lús. Benchmark Genetics hefur framleitt hrognkelsaseiði á Íslandi allt frá árinu 2014 í eldisstöð sinni í Höfnum á Reykjanesi. Fyrirtækið selur um þrjár milljónir hrognkelsaseiða á ári til eldisfyrirtækja á Íslandi og Færeyjum.