Mikill samdráttur hefur orðið í fiskveiðum í Danmörku. Frá árinu 2000 hefur fiskibátum fækkað um þriðjung og aflinn minnkað um helming. Engu að síður er aflaverðmætið svipað nú og árið 2000.

Í fyrra var aflaverðmæti danskra fiskibáta um 64,5 milljarðar íslenskra króna, sem er sama upphæð og árið 2000. Fiskibátum hefur á þessu fjórtán ára tímabili fækkað úr 4.100 í 2.662 og landaður afli minnkað úr 1,1 milljón tonnum í 495.000 tonn.

Danir eru með öðrum orðum að fá mun hærra verð fyrir sinn sjávarafla og á það jafnt við flestar tegundir bolfisks og uppsjávartegundir. Meðalverð á bolfiski var í kringum 74 kr. á kílóið um síðustu aldamót en var á árinu um 210 kr. Svipuð verðþróun hefur átt sér stað í uppsjávartegundum. Meðalverðið var rúmar 20 kr. árið 2000 en rúmar 67 kr. árið 2012.

Þorskverð er þó undantekningin hvað varðar verðhækkanir. Aflaverðmæti þorsks hefur fallið úr tæpum 19 milljörðum kr. árið 2000 í 6,1 milljarð kr. á síðasta ári. Þetta skýrist einnig af mun minni þorskveiði sem hefur fallið úr 33.394 tonnum árið 2003 í 17.744 tonn árið 2012.