Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyjakaupstaðar í vikunni voru lagðar fram tölur yfir landaðan afla í Vestmannaeyjum árin 2012-2014. Fram kom að heildarafli hefur minnkað úr 233 þúsund tonnum árið 2012 niður í 138 þúsund tonn árið 2014. Mestu munar um samdrátt í loðnuafla en minnkun aflamagns er í flestum tegundum.

Ráðið lýsir yfir áhyggjum af samdrætti í lönduðum afla og minnir enn og aftur á mikilvægi þess að treysta undirstöður sjávarbyggða á Íslandi.

Frá þessum er skýrt á vef Eyjafrétta. Elliði Vignisson bæjarstjóri bendir á að landaður afli sé undirstaða alls í bæjarfélaginu. „Laun og þar af leiðandi neysla dregst eðlileg saman í kjölfarið á aflabresti. Minni afli merkir einfaldlega lægri laun almennt í samfélagi okkar Eyjamanna og þar af leiðandi lægra útsvar. Þetta kemur því af sjálfsögðu niður á rekstri Vestmannaeyjabæjar.“

Og hann bætti við:  „Þetta sýni vel hversu mikilvægt það er fyrir okkur að girða okkur í brók þegar kemur að þróun atvinnulífsins hér í Eyjum og nýsköpun. Með því að fjölga eggjunum í körfunni temprum við áhrif af þessari stöðu. Það er orðið löngu tímabært að við tökum til endurskoðunar allt sem lítur að atvinnuþróun og nýsköpun. Með samstilltu átaki hljótum við að geta fundið leið til að viðhalda byggð þar sem íbúarnir eru 1,2% þjóðarinnar og fyrirtækin halda utan um 11% til 13% af kvótanum. Ef ekki þá er rangt gefið.“