Afli fiskveiðiársins 2014/2015 var í nokkuð góðu samræmi við leyfilegan heildarafla í helstu tegundum, að því er fram kemur í yfirliti Fiskistofu um veiðar á síðasta fiskveiðiári.

Afli til aflamarks í þorski á fiskveiðiárinu nam rúmum 174 þúsund tonnum sem samsvarar um 207 þúsund tonnum upp úr sjó. Við bætist afli utan aflamarks: Strandveiðiafli í þorski upp á rúm 7.600 tonn, afli í línuívilnun rúm 3.200 tonn, VS-afli rúm 1.140 tonn og undirmálsafli utan aflamarks 1.360 tonn auk rannsóknaafla og afla sem ekki fékkst út á skiptimarkaði. Þannig endaði heildaraflinn í þorski í  rúmlega 222 þúsund tonnum úr íslenskri lögsögu sem er um 6 þúsund tonnum meira en leyfilegur heildarafli ársins.

Afli til aflamarks í ýsu á fiskveiðiárinu nam rúmum 28.900 tonnum sem samsvarar um 34.400 tonnum upp úr sjó. Við bætist afli utan aflamarks: Meðafli í ýsu á veiðum í Barentshafi og öðrum lögsögum nam rúmu 2.451 tonni, afli í línuívilnun var rúm 1.290 tonn, VS-afli nam 745 tonnum og undirmálsafli utan aflamarks var 156 tonn. Heildaraflinn í ýsu endaði í um 37.850 tonnum.