Vörður ÞH, fyrra af tveimur nýsmíðum Gjögurs hf., kom til Grindavíkurhafnar í gær eftir um fjögurra sólarhringa siglingu frá Brattavogi í Noregi. Þá styttist í að seinni nýsmíðin, Áskell ÞH, komi til landsins. Vörður er hluti af sjö skipa raðsmíðaverk­efni sem ís­lensk út­gerðarfyr­ir­tæki sömdu um við Vard, sem rek­ur m.a. skipa­smíðastöðvar í Nor­egi, Rúm­en­íu og Bras­il­íu, auk Víet­nams.

Stóri munurinn á nýjum Verði og eldra skipi er aðstaðan á dekki sem miðar öll að því að bæta meðferðina á fiski auk þess sem aðbúnaður áhafnar breytist stórlega. Þá er nýja skipið með tveimur vélum og tveimur skrúfum og verður sparneytnara en það eldra.

Eftir komuna til Grindavíkur verður siglt til Hafnarfjarðar þar sem vinnslubúnaðurinn verður settur í hann. Ráðgert er að það verk taki um fimm vikur.

Rekjanleiki

Fiskurinn verður blóðgaður og fullkældur á vinnsludekki. Hann verður flokkaður eftir tegundum og þorskurinn einnig eftir stærð. Flokkunarvél sem byggir á hugbúnaði frá Völku sér um flokkunina. Micro smíðar vinnslubúnað úr ryðfríu stáli og hönnunin byggir á samstarfi fyrirtækisins við Gjögur og Skinney-Þinganes sem á tvö skip í þessu sjö skipa raðsmíðaverkefni. Steinunn og Þinganes, verða með samskonar vinnslubúnaði.

Freyr Njálsson, tæknistjóri hjá Gjögri, segir að hönnunin og búnaðurinn miði að því að áhöfn þurfi aldrei að lyfta þyngdum. Búnaðurinn létti áhöfninni verulega störfin. Lestin tekur lítið meira en lest eldra skipsins en munurinn er sá að nákvæmlega einn skammtur í fiskikar kemur niður í lest hverju sinni af réttri tegund og stærð.

Körin verða strikamerkt sem tryggir rekjanleika afurðanna og hugmyndaflugið eitt setur því skorður hvaða upplýsingar má setja inn í kerfið. Með þessu er verið að stíga inn í nýja tíma og segir Freyr þá tíma að sjálfsögðu löngu liðna þegar stóra málið var að veiða sem mest en minni áhersla lögð á gæði, sölu- og markaðsmál.

Minni stýristöp

„Við ætlum að fara að kæla fiskinn uppi á dekki. Stóra málið er að ná upp enn meiri gæðum. Við lögðum áherslu á að vinnsludekkið yrði sem allra stærst til þess að geta bætt meðferðina á fisknum. Svo er hann með tvær skrúfur og tvær vélar. Það er fyrst og fremst hugsað til þess að bæta togið og minnka olíueyðsluna. Við áætlum líka að svokölluð stýristöp minnki. Þegar togað er þvert á straum þarf stýrið alltaf vera í 10-15 gráðum. En þegar skrúfurnar eru tvær er hægt að beita meira afli á aðra skrúfuna og draga þannig úr stýristapi,“ segir Freyr.

Hann segir erfitt að áætla hver sparnaðurinn getur orðið í olíunotkun. Líta verði til þess að nýr Vörður er með stærri skrokk en sá eldri og það vegur á móti.

Þegar rætt var við Frey var Vörður lagður af stað til Íslands frá Noregi. Þorgeir Guðmundsson var við stjórnvölinn ásamt 5 manns úr 12 manna áhöfn og sóttist siglingin vel. Freyr hafði farið í prufusiglingu innanfjarðar í Noregi og sagði lítið að marka það. Það væri ekki fyrr en fyrir opnu úthafi sem reyndi á skipið og mannskapinn og miðað við siglinguna heim til Íslands er Vörður hið ágætasta sjóskip.

Sem fyrr verður Vörður gerður út frá Grindavík. Sá háttur hefur verið hafður á útgerðinni að allur þorskur sem unninn er fyrir norðan er fluttur landleiðina til Grenivíkur en annað fer á fiskmarkað.

Eldri Vörður sem og Áskell hafa verið seldir FISK Seafood á Sauðárkróki.