Nú liggja fyrir tölur Hagstofu Íslands um aflaverðmæti íslenskra skipa á árinu 2009. Það nam alls rúmum 115 milljörðum króna samanborið við 99 milljarða yfir árið 2008. Aflaverðmæti hefur því aukist um tæpa 16 milljarða eða 16% á milli ára.

Aflaverðmæti botnfisks var 82 milljarðar króna á árinu 2009 sem er aukning um 17% frá fyrra ári þegar aflaverðmætið nam rúmum 70 milljörðum. Verðmæti þorskafla var 37 milljarðar og jókst um 14% frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam rúmum 15 milljörðum, sem er 1,2% aukning milli ára. Verðmæti karfaaflans nam 10 milljörðum, sem er tæplega 9% aukning frá árinu 2008. Verðmæti ufsaaflans nam 7,8 milljörðum og jókst um 20% milli ára. Verðmæti annars botnfisksafla jókst í heild um 40% frá fyrra ári.

Verðmæti flatfiskafla nam tæpum 10 milljörðum króna á árinu 2009, sem er 47% aukning frá fyrra ári. Verðmæti uppsjávarafla stóð nánast í stað milli ára og nam 21,4 milljörðum króna á árinu 2009.

Verðmæti afla sem seldur er í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam 43 milljörðum króna á árinu 2009 og jókst um 16% frá fyrra ári. Aflaverðmæti sjófrystingar jókst um 22,5% milli ára og nam rúmum 41 milljarði króna. Verðmæti afla sem keyptur er á markaði til vinnslu innanlands nam 15 milljörðum samanborið við 13 milljarða árið áður. Verðmæti afla sem fluttur er út óunninn nam um liðlega 13 milljörðum sem er 9% aukning frá árinu 2008.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar, HÉR