Skip þeirra átta útgerða, sem skiluðu mestu aflaverðmæti á liðnu ári, fiskuðu fyrir tæplega 61 milljarð króna eða 24% meira en árið áður. HB Grandi er langefstur á þessum lista með nálægt 15 milljarða í aflaverðmæti.

Þrátt fyrir aðeins 8% aflaaukningu jókst samanlagt aflaverðmæti sjö stærstu útgerðanna á nýliðnu ári um 24% eða um 12 milljarða króna. Það stafar af tvennu. Annars vegar jókst aflaverðmæti uppsjávarskipanna vegna loðnuveiða á síðasta ári og þess að mun meira af makríl fór í manneldisvinnslu en áður. Hins vegar hækkaði verð heldur á afurðum í erlendri mynt og fiskmarkaðsverð innanlands hækkaði verulega, en hvort tveggja hefur áhrif á verð til skipanna.

Í nýjustu Fiskifréttum er fjallað nánar um málið og birtar tölur afla og aflaverðmæti útgerðanna átta.