Aflaverðmæti úr sjó var ríflega 13,9 milljarðar í maí, sem er 20,2% aukning samanborið við maí 2018.
Hagstofa Íslands birtir þessar upplýsingar. Þar segir:
Verðmæti botnfiskaflans nam 10,6 milljörðum og jókst um 32,5%. Af botnfisktegundum nam verðmæti þorskaflans 6,6 milljörðum (30% aukning) og verðmæti ufsaaflans tæpum 1,2 milljörðum samanborið við ríflega 600 milljónir maí 2018. Verðmæti uppsjávarafla, sem var nær eingöngu kolmunni, nam tæpum 1,8 milljörðum í maí og dróst saman um 4,5% samanborið við maí 2018. Aflaverðmæti flatfisktegunda nam tæpum 1,3 milljörðum og verðmæti skel- og krabbadýra tæpum 300 milljónum.
Verðmæti afla sem seldur var í beinni sölu útgerða til vinnslu innanlands nam tæpum 7,8 milljörðum. Verðmæti sjófrysts afla nam tæpum 3 milljörðum og verðmæti afla sem seldur var á markað til vinnslu innanlands nam tæpum 2,5 milljörðum.
Á 12 mánaða tímabili, frá júní 2018 til maí 2019, nam aflaverðmæti úr sjó tæplega 136 milljörðum króna, sem er 10,7% aukning miðað við sama tímabil ári fyrr.