Strandveiðum 2021 lauk í síðustu viku, þrettánda árið í samfelldri röð veiðanna.  Aldrei í sögu veiðanna hefur afli verið meiri - alls 12.146 tonn. Þar af var þorskur 11.159 tonn. Aflaverðmæti þessa afla eru um fjórir milljarðar króna, að því er greint frá á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Aflahæsti bátur strandveiðanna á þessu ári Agla ÁR með rúmlega 51 tonna afla eða 51.115 kíló.  Skipstjóri og eigandi er Aðalbjörn Jóakimsson.  Agla var á veiðisvæði A.

Á svæði B var Jón Magg ÓF með 38.5 tonn, Lundey ÞH á svæði C með tæp 38 tonn og á svæði D var Snjólfur SF með mestan afla eða rétt rúm 46 tonn.

Eins og Fiskifréttir hafa greint frá þá einkenndi veiðarnar í sumar góð aflabrögð, gott verð á afurðum og ekki síst blíðuveður stóran hluta af veiðitímabilinu.