Heildaraflaverðmæti skoskra fiskiskipa lækkaði á árinu 2010 samanborið við árið á undan, að því er fram kemur í frétt á vef BBC. Þar segir að 366 þúsund tonnum hafi verið landað í fyrra að verðmæti 428 milljónir punda, um 76 milljarðar íslenskra króna. Árið 2009 var 377 tonnum landað að verðmæti 443 milljónir punda.

Ein aðalástæðan fyrir lækkuninni er sögð vera sú að verð á makríl hafi gefið eftir. Á árinu 2009 var 152 þúsund tonnum af makríl landað að verðmæti 135 milljónir punda en 135 þúsund tonnum var landað árið 2010 að verðmæti 124 milljónir punda, sem jafngildir 23 milljörðum íslenskra króna. Tekið er fram að verð á markríl hafi hækkað á ný á þessu ári.

Af öðru sjávarfangi má nefna að 6% aukning varð í skelfiski hverskonar en hann skilaði 153 milljónum punda og 2% aukning varð í hvítfiski sem skilaði 152 milljónum punda.

2.153 skosk fiskiskip stunduðu veiðar á árinu 2010, 21 færra skipi en árið 2009. Fiskimönnum fækkaði um 4% og fór fjöldi þeirra niður í 5.218.