Nýlegar voru birtar opinberar tölur um afla og aflaverðmæti skoskra skipa og eru þær taldar endurspegla erfiðleika í greininni, að því er fram kemur á fis.com.

Þótt afli sé svipaður í tonnum talið árið 2012 og árið 2011 hefur aflaverðmæti lækkað um 9% frá árinu 2011, sem var metár.

Skoskir bátar veiddu 365 þúsund tonn af skelfiski og fiski árið 2012. Aflaverðmætið var 466 milljónir punda (tæpir 90 milljarðar ISK).

Aflaverðmæti uppsjávarfisks dróst saman um 11% og var 166 milljónir punda (tæpir 32 milljarðar ISK). Aflaverðmæti botnfisks var 143 milljónir punda (um 27 milljarðar ISK) og dróst saman um 8% milli ára. Aflaverðmæti skelfisks var 157 milljónir punda (um 30 milljarðar ISK) og minnkaði um 6%.

Uppsjávarfiskur vegur mest í aflaverðmæti skoskra skipa eða 36%, skelfiskur kemur þar næst með 33% en botnfiskur skilar 31% aflaverðmætanna.