Aflaverðmæti íslenskra fiskiskipa dróst saman um 15 milljarða króna á síðasta fiskveiðiári samanborið við fiskveiðiárið á undan. Samdrátturinn nam 9,7%. Alls fiskuðu íslensk skip fyrir tæpa 138 milljarða á móti tæpum 153 milljörðum.

Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar. Samdrátturinn skýrist nær eingöngu af minni uppsjávarafla. Verðmæti hans minnkaði um 14 milljarða, fór úr 47 milljörðum í 33 milljarða.

Þar  munar mestu um hrap í loðnuveiðum sem skiluðu aðeins tæpum 4 milljörðum króna samanborið við tæpa 17 milljarða fiskveiðiárið á undan. Verðmæti síldaraflans fór úr tæpum 14 milljörðum í rúma 10 milljarða, en makríllinn gaf hins vegar tæpa 17 milljarða í aflaverðmæti á móti 14 milljörðum fiskveiðiárið á undan.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar.