Hagstofa Íslands greinir frá því að aflaverðmæti úr sjó árið 2018 hafi verið tæpir 126,3 milljarðar sem er 14,8% aukning samanborið við árið 2017.

Þorskur er sem fyrr verðmætasta tegundin með aflaverðmæti upp á 55,8 milljarða, sem er 14,5% aukning milli ára. Alls nam verðmæti botnfiskaflans 89 milljörðum og jókst um 16,9%.

Af öðrum botnfisktegunum nam aflaverðmæti ýsu 10,6 milljörðum (+33,2%), karfa 10,2 milljörðum (+15,5%) og ufsa 7,9 milljörðum (+23,6%).

Verðmæti uppsjávarafla var 24,4 milljarðar sem er 2,6% aukning frá fyrra ári.

Aflaverðmæti flatfisks jókst um 35,6% á milli ára og var 10,2 milljarðar árið 2018.

Verðmæti skel- og krabbadýraaflans nam 2,6 milljörðum á síðasta ári samanborið við 2,4 milljarða árið 2017.

Þá greinir Hagstofan frá því að verðmæti afla, sem seldur var til eigin vinnslu innanlands árið 2018, hafi numið 70,8 milljörðum sem er um 56% af heildarverðmæti. Verðmæti sjófrysts afla nam 29,8 milljörðum og verðmæti afla, sem fór á fiskmarkaði til vinnslu innanlands , nam 19,5 milljörðum, eða um 15% af heildarverðmæti.

Nánar má lesa um þetta á vef Hagstofunnar , en hún tekur fram að hagtölur þessar séu bráðabirgðatölur. Þær byggist á gögnum um verðmæti fyrstu sölu landaðs afla sem Fiskistofa safnar saman.