Aflaverðmæti íslenskra skipa nam 122,8 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2012 samanborið við 114,5 milljarða á sama tímabili 2011. Aflaverðmæti hefur því aukist um 8,3 milljarða eða 7,2% á milli ára.

Aflaverðmæti botnfisks var 71,5 milljarðar og jókst um 5,6% frá sama tíma í fyrra þegar aflaverðmætið nam 67,7 milljörðum. Verðmæti þorskafla var um 36,5 milljarðar og jókst um 12,8% frá fyrra ári. Aflaverðmæti ýsu nam 9,3 milljörðum og jókst um 10,3% en verðmæti karfaaflans nam 10,3 milljörðum, sem er 7,0% aukning frá fyrstu níu mánuðum ársins 2011. Verðmæti ufsaaflans jókst um 9,3% milli ára og nam 7,0 milljarði króna í janúar til september 2012.

Verðmæti uppsjávarafla nam um 38,0 milljörðum króna í janúar til september 2012, sem er 7,6% aukning frá fyrra ári. Sú aukning skýrist að mestu af loðnuafla að verðmæti rúmum 13 milljörðum króna samanborið við 8,7 milljarða fyrstu níu mánuði ársins 2011. Einnig var 2,4 milljarða króna aukning í kolmunnaafla, sem nam um 2,7 milljörðum króna árið 2012. Verðmæti makrílafla dróst saman um 19% á milli ára og nam tæpum 14,4 milljörðum króna í janúar til september 2012.

Sjá nánar á vef Hagstofunnar.