Bresk eftirlitsstofnun sem fylgist með nýtingu sjávarafurða, Marine Management Organisation (MMO), segir í nýrri skýrslu að aflaverðmæti breskra skipa hafi aukist verulega milli áranna 2010 og 2011.
Löndunartölur sýna að bresk skip lönduðu 600.000 tonnum af fiski og skelfiski í breskum höfnum árið 2011 að verðmæti 828 milljónir sterlingspunda eða jafnvirði 157 milljarða íslenskra króna sem er svipað og aflaverðmæti íslenskra skipa á sama ári (154 milljarðar).
Samanburður við árið 2010 sýnir að magnið er um 1% minna en verðmætið 15% meira en árið áður. Verðmætisaukningin er svipuð og á Íslandi. Helsta ástæðan er sögð vera 40% hækkun á verði uppsjávarafla.
Í skýrslunni segir að bresk skip landi um 86% alls afla sem kemur á land á Bretlandseyjum og að landanir erlendra skipa hafi dregist saman um 39% milli ára. Landanir milli landshluta skipast þannig að mest er landað af skelfiski á Suður-Englandi og Norður-Írlandi en mest af uppsjávarfiski í Skotlandi.