Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar að aflokinni 35 daga veiðiferð í gær og hófst löndun úr skipinu í morgun. Aflinn er 860 tonn upp úr sjó að verðmæti 425 milljónir króna. Um er að ræða blandaðan afla; mest er af karfa en síðan ýsa, þorskur, ufsi og grálúða.
Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra gekk túrinn býsna vel. „Túrinn var veðurfarslega tvískiptur. Í fyrri hlutanum voru samfelldar brælur en í síðari hlutanum algjör blíða. Við veiddum allvíða eða frá Vestfjarðamiðum til Suðausturmiða, en vorum ekkert úti fyrir Norðurlandinu. Veiðin var tiltölulega jöfn, einkum eftir að veðrið batnaði. Karfann veiddum við á Melsekk og þar var mokveiði, það var reynt að stýra veiðinni með tilliti til þess hvað vinnslan réði við. Í sannleika sagt gekk veiðiferðin vel í alla staði enda í áhöfninni vanir og góðir menn sem leysa öll verkefni farsællega. Skipið mun halda á ný til veiða á laugardag og þá er 30 daga túr framundan,“ sagði Bjarni Ólafur á vef Síldarvinnslunnar.