Snjallsímaforrit til aflaskráningar hefur verið í þróun hér á landi í nokkur misseri, en stefnt er að því að það verið tilbúið nú í ársbyrjun.
Jafnframt er nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um rafræna aflaskráningu. Hún á að taka gildi 1. september næstkomandi og felur í sér að öll á öllum skipum, stórum sem smáum, verði aflabrögð skráð með rafrænum hætti með snjallsímaforriti eða í rafræna afladagbók.
Þá njóta upplýsingar í afladagbók ekki leyndar, en til þessa hefur trúnaður ríkt um þær að öðru leyti en því að þær hafa verið nýttar í vísindalegum tilgangi fyrir Hafrannsóknastofnun, sem eftirlitsgögn fyrir Fiskistofu og Landhelgisgæslu auk annarra verkefna sem varða fiskveiðistjórnun.
„Rökin eru þau að nú sést á netinu hvar skipin eru við veiðar og því er núverandi leynd orðin ástæðulaus,“ segir í Samráðsgáttinni.
Nýju reglurnar kveða á um að aflaskráningu skuli vera lokið og upplýsingar um afla sendar til Fiskistofu áður en skipi er lagt að bryggju að lokinni veiðiferð.
Í samráðsgátt er frestur til umsagna til 15. janúar, en nú þegar hefur ein efnisleg athugasemd borist: „Hvernig er hægt að vita þyngd á afla áður en komið er í land?“ spyr Jón Einarsson. „Ekki er hægt að ætlast til þess að afli sé vigtaður um borð í strandveiðibátum á meðan á veiðum stendur."