Nú er verið að þróa aflareglu fyrir ufsa og til stendur að gera slíkt hið sama fyrir ýsu. Með því móti yrði fastsett að útgefinn árlegur kvóti í þessum tegundum yrði ákveðin prósenta af veiðistofninum hverju sinni, líkt og nú tíðkast varðandi þorskinn, segir í nýjustu Fiskifréttum.
,,Það er nú þegar búið að þróa aflareglu fyrir ufsaveiðar og við höfum lagt til við stjórnvöld að slíkri reglu verði komið á í samráði við aðila í atvinnugreininni. Tillaga að aflareglu fyrir ufsann er mjög svipuð þorskreglunni og tekur veiðiráðgjöf okkar í ár mið af henni,” segir Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar í samtali við blaðið. Þá hefur sjávarútvegsráðuneytið óskað eftir að þróuð verði aflaregla fyrir ýsu.
,,Það verður að segjast eins og er að of stíf sókn bæði í ufsa og ýsu á undanförnum árum leiddi til lakari nýtingar á stofnunum en annars hefði orðið sem m.a. helgast að því að menn voru að takast á við niðurskurð í þorskafla. Tillögur okkar ganga ávallt út á að ná hámarksnýtingu á þeim árgöngum sem eru að komast á legg en það tókst kannski ekki sem skyldi. Hins vegar er langur vegur frá því að stofnum ýsu og ufsa hafi verið ógnað en setning aflareglu á grundvelli sjónarmiða langtímanýtingar færði án efa meiri festu í stjórnun veiðanna í framtíðinni,” segir Jóhann.
Sjá nánar viðtal við forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.