Rannsóknastofnunin Nofima í Noregi segir að gæði landaðs þorsks af strandveiðibátum í Noregi hafi skánað á allra síðustu árum. Samkvæmt könnun stofnunarinnar eru núna um 65% þorsksins í góðu ástandi við löndun, 10% aflans eru af lakari gæðum og 25% slæmt hráefni. Fiskur veiddur í dragnót, á línu og á handfæri er áfram besta hráefnið við löndun.
Fram kemur að helstu gallarnir séu blóð í vöðvum vegna skorts á blæðingu eða vegna þess að fiskurinn hafi verið dauðblóðgaður. Fiskholdið verði því rautt. Viðurkennt er í skýrslu Nofima að veðurfar við fiskveiðar geti haft áhrif á aflagæði og eins það ef fiskurinn kemst í fæðuveislu eins og síld.
Nofima telur að gæði aflans megi auka með því að landa daglega eða takmarka hversu mikið hver bátur megi koma með að landi hverju sinni, auk þess að setja reglur um hámark á afla í hverju togi. Þá þyrfti að bæta verkferla um borð í skipum og bátum svo hægt væri að blóðga og kæla fiskinn í stöðugu ferli.
Frá þessu er skýrt á vefnum fiskerforum.dk.