Vestanganga loðnu gengur þessa dagana yfir veiðislóðina úti af Vestfjörðum og hefur það mikil áhrif á línuveiðar sökum mikils ætis í hafi en fiskurinn hættir að taka línuna þegar hann hefur loðnuna til að gleypa. Veiði datt niður undir lok mars en virtist ætla glæðast aftur þegar hún datt svo alveg niður nú fyrir helgina samkvæmt upplýsingum blaðsins Bæjarins besta á Ísafirði.
Þorsteinn Ólafson skipstjóri á Patreksfirði segir í samtali á vefnum bb.is að þetta minna á göngur loðnunnar á árum áður en þá duttu veiðar niður í 2-3 vikur. „Við höfum verið á steinbít og það er nóg af honum þótt hann sé að mörgu leyti mun dreifðari en hann hefur verið. Þegar svona gerðist í gamla daga þá skiptust menn bara á að fara dag og dag til að taka stöðuna. Það fiskast þá bara einn og einn fiskur þangað til þetta er gengið yfir og hann verður gráðugur aftur.“
Vestanganga loðnunnar er mjög jákvæð fyrir lífríkið að sögn Sigurðar Viggóssónar hjá Odda á Patreksfiðri. „Þó þetta þýði fyrir okkur veiðitregðu tímabundið á bolfisktegundunum þá eru það heildarhagsmunirnir sem við verðum að hugsa um. Skipstjórarnir hér eru vissulega á því að þetta sé vestanganga loðnunnar. Við verðum að gera ráð fyrir því í vinnslunni hjá okkur ef rétt reynist.“