Fimm bátar rufu 26 tonna múrinn á strandveiðivertíðinni þegar að þorskafla kemur. Þetta kemur fram í úttekt Baldurs Guðmundssonar, strandveiðimanns og blaðamanns á vefmiðlinum Auðlindinni.

Tölurnar tók Baldur saman á miðvikudag, daginn eftir að strandveiðum lauk. Segir hann að Nökkvi Ár hafi verið aflakóngurinn þegar allur afli sé talinn. Hann hafi veitt 40 tonn af fiski, þar af 18 tonn af ufsa. Fimm bátar hafi veitt 10 tonn eða meira af ufsa á vertíðinni.

„Aflahæsti báturinn í þorski, að frátöldum umframafla, var Kári BA. 116 bátar lönduðu að jafnaði 750 kg af þorski eða meira á vertíðinni,“ segir á audlindin.is.

Öflugasta höfnin á Norðurfirði

Norðurfjörður er sögð hafa verið öflugasta löndunarhöfnin. Meðalvigtin þar hafi verið 762 kíló af þorski, þegar leiðrétt hafi verið fyrir umframafla. „Athygli vekur að sex hafnir á svæði C ná inn á top 20 listann, en besta veiðin á C-svæði er jafnan síðsumars. Þessar tölur taka auðvitað ekki til stærðar fisks eða verðs, aðeins þyngdar.“

Enn fremur er bent á að Fiskistofa hafi reynt að spyrna við löndun umframafla fyrir vertíðina með því að afnema að löndun umframafla telji til veiðireynslu fyrir byggðakvóta. 21 bátur hafi engu að síður landað meira en tonni af samanlögðum umframafla á vertíðinni.

Umframafli og afgangur hefði getað bætt við degi

„Aðgerð Fiskistofu hefur ekki skilað tilætluðum árangri því flotinn veiddi 223 tonn umfram leyfilegt hámark dagsafla á þorski á vertíðinni. Þegar við bætist að 115 tonn voru eftir af pottinum þegar veiðarnar voru stöðvaðar má gera ráð fyrir að flotinn hefði fengið einn veiðidag til viðbótar, ef engum umframafla hefði verið landað, eða ef reglum hefði verið breytt þannig að umframafli dregðist ekki frá heildarafla; að brot fárra bitnaði ekki á fjöldanum,“ er bent á í samantekt Baldurs Guðmundssonar á audlindin.is þar sem nánar er farið ofan í saumana á strandveiðivertíðinni.