Beitir NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1.400 tonn af makríl úr Smugunni. Að undanförnu hefur makrílvinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar verið nokkuð samfelld og gengið vel.
Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, og spurði hve langt hefði verið til Neskaupstaðar þegar lagt var af stað af miðunum.
„Það voru um 370 mílur þannig að það er töluvert langt að fara. Aflinn sem við erum með er að hluta til okkar eigin en við tókum einnig afla frá Berki II og Vilhelm Þorsteinssyni. Við byrjuðum túrinn á að setja tvö hol í Bjarna Ólafsson. Vertíðin er í fullum gangi og það er til dæmis ágætis veiði núna hjá skipunum á miðunum. Að undanförnu hafa aflabrögðin verið misjöfn, stundum þarf að kippa svolítið og leita en svo er ágætis veiði inn á milli. Það má segja að vertíðin sé hin ágætasta þegar á heildina er litið en það hefur þurft að hafa svolítið fyrir þessu. Það er engin ástæða fyrir okkur að kvarta neitt,“ segir Tómas.
Vinnslan á fullt
Í annarri frétt Síldarvinnslunnar segir frá því að vinnsla í frystihúsi Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði hófst 10. ágúst að afloknu sumarfríi.
Ómar Bogason rekstarstjóri segir að allt sé komið í fullan gang og að starfsfólk hafi skilað sér vel úr fríinu.
Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar sl. laugardag og var afli hans 109 tonn. Uppistaða aflans var þorskur og ýsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að bongóblíða hafi verið allan túrinn.
„Það var ágætis kropp í þessum túr. Mest fengum við af þorski, svolítið af ýsu og lögð var áhersla á karfa í restina. Við byrjuðum í þorski á Langabanka, fórum síðan í Hvalbakshallið í þorsk og ýsu og einnig veiddum við í Lónsdýpinu og á Stokksnesgrunni. Loks var farið í karfa í Berufjarðarálnum. Það hefur ekki verið sérstaklega mikið af fiski nú í ágústmánuði hér fyrir austan en þetta kroppast samt ágætlega. Nú eru bara tveir túrar eftir af þessu kvótaári sem hefur verið ágætt. Það sem er sérstakt við þetta kvótaár er tíðarfarið en það hefur verið einstaklega ljúft. Veturinn var góður og eins og allir hér fyrir austan vita hefur sumarið verið hreint yndislegt bæði á sjó og landi,“ segir Þórhallur.