Nú fer að líða að lokum yfirstandandi makríl- og síldarvertíðar. Jón Gunnar Sigurjónsson verksmiðjustjóri í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir í samtali á vef fyrirtækisins að vertíðin hafi verið einstaklega góð.
„Veiðin hefur verið samfelld og vinnslan gengið vel. Frá því að vertíðin hófst um miðjan júlí hefur enginn dagur fallið niður í fiskiðjuverinu vegna hráefnisskorts. Veður hefur verið gott má segja í allt sumar og september var einstaklega góður þannig að skipin hafa getað stundað veiðar við góðar aðstæður nánast hvern einasta dag.“
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Jón Gunnar segir að ekki sé unnt að vera annað en sallaánægður með vertíðina, hún hafi vart geta gengið betur. Gera má ráð fyrir að vinnslu á norsk-íslenskri síld muni ljúka í næstu viku og þá verði farið að undirbúa vinnslu á íslenskri sumargotssíld.