Héraðsráðið í North East Lincolnshire á Englandi fundaði um helgina með forsvarsmönnum Icelandic Seachill, dótturfyrirtækis Icelandic Group, vegna þeirra stöðu sem upp er komin eftir að fyrirtækið missti viðskiptasamning sinn við Marks & Spencer (M&S).
Eins og kom fram í Fiskifréttum í síðustu viku hljóðaði samningurinn sem tapaðist upp á 60 milljónir punda á ári (10,8 milljarða ISK). Þetta eru 23% af heildarviðskiptum Icelandic Seachill Grimsby sem hafa verið um 260 milljónir punda alls (47 milljarðar ISK).
Í frétt á vefnum FISHupdate.com kemur fram að 1400 manns starfi hjá fyrirtækinu. Ekki hafi verið upplýst hversu margir missi vinnuna af þessum sökum en sumir meti það svo að það gæti orðið allt að 300 manns.
Vonast er til að hluti starfsmannanna í Grimsby muni fá vinnu hjá þeim aðilum sem M&S semur við að taka við verkinu. Fram kemur að fyrirtækið Five Star Fish, sem er staðsett í námunda við verksmiðjurnar þrjár sem Seachill hefur rekið í Grimsby, muni taka yfir þann þátt framleiðslunnar sem snýr að því að hylja fiskinn brauði og raspi og gæti það jafngilt um tveimur þriðju af samningnum sem Seachill missti. Þá muni rækjukokteil framleiðsla færast yfir til Greencore sem er í eigu Bakkavarar.
Einn af talsmönnum héraðsráðsins segir að þessir atburðir séu mikið áfall fyrir Grimsby en ráðið muni gera allt sem í þess valdi stendur að aðstoða þá sem verða fyrir atvinnumissi.