Í kjölfar heimsfaraldursins og innrásar Rússa í Úkraínu hefur verð á sjávarafurðum í Evrópu hækkað verulega og er hátt í samanburði við aðra próteingjafa, eins og kjúkling og svínakjöt. Faraldurinn og innrásin í Úkraínu hefur leitt til mikilla kostnaðarhækkana sem hafa lagst á verð sjávarafurða. Marós í Cuxhaven, fyrirtæki í eigu Óskars Sigmundssonar, sem hefur meðal annars sérhæft sig í sölu á gullkarfaflökum og öðrum sjávarafurðum til dreifingar í smásölu- og á stórnotendamarkaði í Evrópu, hefur ekki farið varhluta af þessu frekar en aðrir seljendur sjávarafurða.

Gætu snúið sér að öðrum tegundum

Marós er ekki með eigin vinnslu og kaupir meirihluta hráefnisins sem fyrirtækið lætur vinna fyrir sig frá Íslandi en talsvert magn kemur einnig frá Noregi. Óskar telur að 20% niðurskurður í þorskveiðum í Barentshafi þriðja árið í röð á næsta ári muni hafa ákveðin áhrif á markaðinn. Margt geti líka breyst þegar ekki eru lengur milljón tonn af þorski að fara inn á markaðina heldur nokkur hundruð þúsund tonn. Þegar stórir samningar eru gerðir við verslanakeðjur þarf magnið að vera mikið og tiltrú á því að staðið verði við samninga til lengri tíma. Því minna sem framboðið verður því erfiðara verður að gera slíka samninga. Í þessu gæti hugsanlega falist tækifæri fyrir Ísland en þá þurfi að koma til markaðssetning. Sú staða gæti einnig komið upp að stórar verslanakeðjur taki einfaldlega þá ákvörðun í ljósi minnkandi framboðs að snúa sér meira að öðrum ódýrari tegundum í stað þess að stóla á þorsk þegar fram[1]boðið minnkar, tegundum eins og Alaska ufsa, lýsing og ufsa eða ýsu til dæmis.

Gullkarfinn – eftirspurnin í Þýskalandi gefur eftir

„Frá því við byrjuðum starfsemi hérna fyrir að verða átta árum, hefur gullkarfakvótinn dregist saman á Íslandi um 50% og verðið tvöfaldast. Þetta eru miklar sveiflur og það kom svo mörgum á markaðnum á óvart að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar frá því í sumar hljóðaði upp á rúma 60% aukningu. Verð á þessum afurðum hefur verið hátt undanfarin ár og salan samt verið nokkuð stöðug. En eftirspurn hér á gullkarfa hefur dálítið verið að gefa eftir núna að undanförnu og hátt verð að gera honum erfiðara fyrir. Það gæti því orðið á brattann að sækja fyrir gullkarfa hér á næstunni. Ástandið er einfaldlega þannig að það hefur breyst úr seljendamarkaði í kaupendamarkað,“ segir Óskar.

Óskar Sigmundsson, framkvæmdastjóri og eigandi Maróss.
Óskar Sigmundsson, framkvæmdastjóri og eigandi Maróss.

Gullkarfi af Íslandsmiðum var eina MSC-vottaða karfategundin en nú hafa fleiri tegundir fengið vottun, eins og norski karfinn og einnig kyrrahafskarfi. Þetta hafi stuðlað að aukinni samkeppni á sama tíma og dregið hafi úr eftirspurn. Samdráttur í fiskneyslu í Evrópu Samdráttur er í fiskneyslu í Evrópu og sjávarafurðir hafa að vissu marki þurft að víkja fyrir öðrum og ódýrari próteingjöfum eins og kjúklingi og svínakjöti. Fiskneysla á Spáni, sem er stærsti einstaki markaðurinn í Evrópu fyrir sjávarafurðir, hefur fallið úr 40 kg á ári á mann í 19 kg á síðastliðnum 25 árum. Á síðasta ári nam samdrátturinn þar 13% og er rakinn til minni fiskneyslu á heimilum í kjölfar heimsfaraldursins. Þetta á reyndar við víðar í álfunni. Svo rammt kveður að þessu að á tímabili sást vart lengur fiskur auglýstur í fjölpósti matvöruverslana sem dreift er í hús í Þýskalandi. Þar er nægt framboð af annarri matvöru auglýst, eins og kjúklingi og svínakjöti.

Krefjandi verkefni framundan

Óskar segir að verð á sjávarafurðum hafi tekið að hækka mikið 2021 og 2022 þegar aðfangakeðjan fór að hökta í heimsfaraldrinum og vegna stríðsins í Úkraínu. Allt hafi þetta leitt til þess að dregið hafi úr eftirspurn og markaðurinn breyst að miklu leyti í kaup[1]endamarkað. Það er verslunarkeðjan sem ákveður hvaða afurðir eru í boði og hvað er auglýst en síðan er það neytandinn sem hefur lokaorðið. Á tímum verðbólgu og hækkandi verðlags er ekki sjálfgefið að fiskur sé alltaf fyrsti valkostur. Það eru því krefjandi verkefni framundan að koma fiskinum á framfæri, finna og nýta tækifærin.