Íslenski loðnustofninn leggur lykkju á leið sína í göngu á hrygningarslóðir. Hún fer ekki stystu leið eins og aðrir loðnustofnar í norðurhöfum gera. Líkleg skýring á þessari hegðun er sú að loðnan sé að forðast afrán þorsks fyrir austan, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Þessar upplýsingar komu fram í erindi sem Anna Heiða Ólafsdóttir líffræðingur flutti í málstofu Hafrannsóknastofnunar nýlega. Anna Heiða er þessi misserin að ljúka doktorsnámi í líffræði við Memorial University í Kanada. Doktorsritgerð hennar fjallar um hrygningargöngu íslensku loðnunnar.

Anna sýnir meðal annars fram á í rannsóknum sínum að sjávarhiti ræður ekki þessu leiðarvali loðnunnar. Sami hiti sé á landgrunninu fyrir austan og við landgrunnsbrúnina. Það sé frekar eins og loðnan forðist einhverra hluta vegna í lengstu lög að fara inn á landgrunnið fyrr en hún finnur nógu heitan sjó suðaustur af landinu til að hrygna í.

,,Ég tel að loðnan sé að forðast afrán frá þorski fyrir austan. Þróunarfræðilega séð hefur þetta getað gerst með þeim hætti að sú loðna sem gekk utar, þ.e. við landgrunnsbrúnina, lifði ferðalagið frekar af en sú loðna sem fór strax upp á landgrunnið. Meira var étið af loðnu á þorskslóð á grunnsævi og því voru meiri afföll af henni,“ segir Anna Heiða.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.