Um borð í flestum íslenskum uppsjávarskipum nú orðið er CatSat búnaður í lykilhlutverki þegar kemur að því að leita uppi fiskinn. Á tölvuskjám í brúnni er að finna upplýsingar um aðstæður í hafinu og út frá því má sjá hvar fiskurinn gæti haldið sig. Þetta er mikil framför frá því sem áður þekktist.
„Þetta byrjaði allt á hæðarmælingum sjávar, og þá fóru menn að átta sig meira á hita og slíku.“ segir Ragnar Harðarsson, framkvæmdastjóri hjá Akor, fyrirtækinu sem sér um dreifingu á CatSat í norðanverðri Evrópu. „Síðar komu hitakort og svo átukort, því gervihnettir ná að lesa lit úr plöntusvifi og þá var hægt að kortleggja það. Og þetta var að rúlla á því fyrstu 10-12 árin, bara í alltaf meiri og meiri gæðum og með smá viðbótum.“
CatSat hófst sem frumkvöðlaverkefni fyrir meira en 20 árum og í fyrstu var eingöngu verið að horfa á túnfiskveiðar og síðar uppsjávarveiðarnar einnig. Í dag er þróun búnaðarins enn á fleygiferð, segir Ragnar.
„Við erum komnir niður í dýraátuna og svo niður í smáfiskakort. Þetta eru svakalega miklar breytingar en það eru þá líka miklar kröfur gerðar til búnaðarins.“
Nafnið CatSat er upphaflega tilkomið sem skammstöfun, þar sem CAT stendur fyrir Colour eða litakort, Altimetri eða hæðarmælingu, og Temperature eða hita. SAT stendur síðan fyrir Satellite vegna þess að upplýsingarnar koma frá gervihnöttum.
„Þetta er því bara mjög gott nafn og algerlega bein tenging við það sem er að gera,“ segir Ragnar. „Það er verið að finna og nota hafupplýsingar til að hámarka veiðar. Finna bestu skilyrðin og hvað hentar í þessum veiðum eða hinum. Hvort sem við erum að tala um makríl eða túnfisk eða hvað þá hefur þetta allt sínar forsendur. Það er misjafnt hvað hentar og hvað er best að nota við einhverjar aðstæður.“
Spara sér tíma
„Menn geta sparað sér hellings tíma við sigla ekki á rangar slóðir, getum við sagt. Þegar menn eru komnir með reynslu og þekkingu sjá þeir alveg í kortunum hvar eru engar forsendur fyrir því sem þeir eru að leita að. En svo þarf oft að minna menn á að þetta er ekki spretthlaup, þetta er langhlaup. Menn þurfa að skilja út á hvað þetta gengur.“
Ragnar segir að CatSat sé í notkun á að minnsta kosti 800 skipum víðs vegar um heim, og þeim fari sífellt fjölgandi.
„Upphaflega voru þetta mikið túnfiskskipin sem voru að nota CatSat kerfið, en svo hefur þetta breiðst mikið yfir í aðrar veiðar. Til dæmis uppsjávarveiðar, þar hefur orðið gífurleg þensla. Við höfum líka verið að markaðssetja út um allan heim og erum með stórar útgerðir nánast hvar sem er í heiminum í dag. Þau nýjustu eru í Óman, og svo á Grænlandi, Íslandi og Færeyjum. Við vorum í Rússlandi og þar var gífurlegur vöxtur, en aðstæður eru breyttar og við tökum bara því með æðruleysi eins og sakir standa. Við erum einnig víða í Afríku og ein stærsta útgerðin í Hollandi er með þetta hjá sér, bæði í túnfiskveiðum og á uppsjávarskipum.“
Hann segir fjölmargar fyrirspurnir berist frá útgerðum um kerfið, hvort það henti í þessar eða hinar veiðarnar og við ýmsar aðstæður.
Prófað á botnfiskinn
„Þetta er upphaflega ekki gert fyrir botnfiskveiðar og annað slíkt. En ég sá bara á Sjávarútvegssýningunni núna að ég var að fá alvöru áhuga frá smábátum og svo bara upp úr. Ef þeir eru ekki að tala um uppsjávarveiðarnar sem slíkar þá svara ég því til að ég geti kennt þeim á kerfið og útskýrt fyrir þeim upplýsingarnar. Þeir verði svo bara að prufa og segja mér hvort þetta henti fyrir þeirra veiðar.“
Flestar íslenskar útgerðir sem eru í uppsjávarveiðum eru komnar með þennan búnað, og hafa verið með hann í mörg ár.
Ragnar er spurður hvort hafrannsóknastofnanir nýti sér búnaðinn eða séu að gera eitthvað svipað.
„Við erum að sumu leyti að fara lengra en þeir eru að gera,“ svara hann.
Inni á Hafró sé vilji til þess að vera með svona kerfi, en þar snúist þetta aðallega um fjármagn.
„Ég er í þeirri stöðu að ég vil ekki mismuna notendum. Það verða allir að sitja við sama borð, og ef vísindastofnun eins og Hafró sér ekki notendagildið þá hef ég ekki áhyggjur af því. En ég hef unnið með þeim og þeir hafa reynst mér frábærlega vel.“
Sögurnar gleðja
Ragnar segist hafa óskaplega gaman af að vinna við þetta.
„Þetta er alltaf ævintýri hvern einasta dag. Maður er að vinna með mönnum um allan heim, og kúltúrinn er misjafn. Sumir eru móttækilegri fyrir nýrri tækni en aðrir.“
Ekki síst sé ánægjulegt að heyra sögurnar frá þeim sem eru að nota búnaðinn.
„Þeir sem eru búnir að tileinka sér þetta og eru virkilega að vinna með þetta, þeir eru að segja manni sögur. Þeir eru kannski að skoða aðstæður þar sem einhver var að veiða, og fóru þá aftur í tímann í kerfinu og skoðuðu aðstæðurnar þar sem þessi var að veiða og spurðu svo kerfið hvar finn ég sömu forsendur í hafinu í dag. Þegar menn sækja námskeiðin og læra virkilega á þetta þá geta þeir gert ótrúlegustu hluti á ótrúlega stuttum tíma.“
Hann heyrir líka frá góðum skipstjórum sem segjast vera orðnir alltof gamlir til að læra á svona.
„En þeir vita hvað þetta er og vilja hafa það um borð. Síðan líta þeir á stýrimennina, ungu strákana, og segja að þeir verði að læra allt um þetta og þá sé hægt að spyrja þá. Þetta er leiðtoginn. Í staðinn fyrir segja bara nei, hugsar hann í lausnum og veit hann hefur þarna menn sem eru ungir og ferskir og hafa alist upp við tölvur og eru fljótir að tileinka sér þetta.“