Egill ÍS 77 hefur lokið rækjuveiðum í Arnarfirði að sinni. Báturinn hefur landað 125 tonnum af rækjum eftir 12 veiðiferðir. Alls er heildarkvótinn í Arnarfirði 166 tonn og auk Egils ÍS 77 er það Jón Hákon BA frá Bíldudal sem hefur rækjukvóta, en hann hefur ekki hafið veiðar enn.

Stefán Egilsson eigandi Egils ÍS 77 sagði í samtali við Bæjarins besta að útgerðin hefði verið á rækjuveiðum í Arnarfirði síðan 2012 og þær hefðu aldrei verið eins góðar og nú, „veiðarnar hafa verið ævintýralegar góðar“ sagði Stefán. Veiðar hófust 2. mars og veitt var til 15. mars. Síðan hófust veiðar aftur í síðustu viku, 2. apríl og lauk á föstudaginn 5. apríl.

Stefán Egilsson sagði að hann og Gunnar Torfason, útgerðarmaður á Ísafirði myndu hitta sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar á morgun og fara yfir veiðarnar í Arnarfirði.