Þetta nefndi Heiðrún Lind Marteins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri SFS, þegar hún gerði upp ársfundinn. Níundi áratugurinn er auðvitað sá tími þegar fiskveiðistjórnunarkerfinu var komið á í upphaflegri mynd – og það frekar frumstæðri. Það verk var vandasamt, sagði Heiðrún Lind.

Erfiðar ákvarðanir

En hvað var markmið þeirra sem þurftu að taka sársaukafullar ákvarðanir, spurði hún. Markmiðið var skýrt; auka verðmæti, tryggja efnahagslegan stöðugleika og byggja undir lífskjör komandi kynslóða.

„Við erum, því miður, alltaf að tala um þessa veröld sem var. Í tilfelli sjávarútvegs var sú veröld ekki góð og var ástæða erfiðra ákvarðana. Þetta var tími ofveiði, óhagkvæmni, gjaldþrota og gengisfellinga,“ sagði Heiðrún Lind og setti stórt spurningu við að enn sé rifist um upphaflega úthlutun aflaheimilda sem ekki var sett út á, á þeim tíma sem breytingarnar voru gerðar.

Talar sínu máli

Heiðrún Lind nefndi að mikið sé um þetta rætt, en minna um hvar íslenskur sjávarútvegur er staddur í dag. Hverju hefur sjávarauðlindin skilað okkur, spurði hún og svaraði.

Að hennar mati hefur hún átt stóran þátt í að skila okkur eftirsóknarverðustu lífskjörum í heiminum.

„Við erum rík þjóð í öllu tilliti og það eru lífskjör sem sjávarútvegur hefur átt stóran þátt í að skapa. Sumir leyfa sér, og það er hreint ótrúlegt, að tala eins og okkur hafi mistekist á níunda áratug síðustu aldar. Verðmætasköpun í sjávarútvegi er hvergi meiri en á Íslandi,“ sagði Heiðrún Lind. Hún nefndi afkomu, há laun á sjó og í landi, öryggismál, nýsköpun, fjárfestingu og fullvinnslu máli sínu til stuðnings. Eins það sem er svo mjög í deiglunni nú um stundir, eða olíunotkun og kolefnisspor greinarinnar sem hefur dregist stórlega saman á síðustu árum.

Verkefnið

En hvað er framtíðarverkefnið?

„Við tölum mikið um fortíð og nútíð en lítið sem ekkert um framtíðina. Mér finnst það augljóst. Við eigum að byggja enn frekar ofan á þessa verðmætasköpun sem krefst vinnu og útsjónarsemi. Við vitum að við getum gert enn betur,“ sagði Heiðrún Lind og bætti við að skynsamlegt sé, og gerlegt, að stefna að tvöföldun þeirra verðmæta sem greinin skapar í dag.

Hún taldi núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi þar mikilvægt og vísindin ekki síður. Magnaukning muni koma frá fiskeldi þar sem tækifærin séu mikil enda sé þar vaxtarsproti greinarinnar.

„En við getum einnig, með metnaði í hafrannsóknum, gert enn betur í að auka það magn sem við drögum úr sjó og við nýtum þá auðlind sem við eigum hér. En því miður, og ekkert nýtt í þeirri gagnrýni sem hér kemur fram, virðist stundum að skilningur fyrir því að hafrannsóknir séu metnaðarfullar séu aðeins í orði en ekki á borði. Verkefnin hafa bara aukist. Ekki aðeins að ný grein er komin til skjalanna, fiskeldið sem fer vaxandi, heldur erum við einnig með auknar kröfur vegna breytinga í umhverfinu og ekki síst í hafinu. Eins auknar kröfur markaða og alþjóðasamfélagsins. Við verðum að stunda hafrannsóknir eins og þær best gerast,“ sagði Heiðrún Lind.

„En verðmæti felast ekki bara í fjármunum. Verðmæti felast ekki síður í samfélaginu og sátt við samfélagið sem hefur verið verkefni atvinnugreinarinnar,“ sagði Heiðrún Lind og nefndi þar sérstaklega jafnréttismál.

Myndir frá fundinum má nálgast hér í samantekt SFS.