Hann og faðir hans, Ari Kristinsson, réru á lítilli trillu frá Dalvík. En skömmu síðar reið ógæfan yfir. Gunnar var ekki nema þrettán ára gamalt barn þegar hann þurfti að sjá á eftir föður sínum og axla mikla ábyrgð við að styðja móður sína í lífsbaráttunni.

Eftir fráfall föður síns var Gunnar tilneyddur til að fara út á vinnumarkaðinn og sjá móður sinni og þremur yngri systkinum farborða. Þannig var veruleikinn í Dalvík sem og annars staðar á Íslandi um miðbik síðustu aldar. 15 ára var Gunnar kominn til sjós sem háseti, 19 ára sem stýrimaður og 22 ára var hann ráðinn skipstjóri á Baldvin Þorvaldsson EA. Vorið 1963 lenti hann í miklum hrakningum ásamt frænda sínum á lítilli trillu úti fyrir Dalvík. Í sama óveðri fórust tveir dalvískir bátar og með þeim sjö menn. Atburðir sem þessir marka spor.

Gunnar lítur yfir farinn veg 79 ára gamall. Hann var heiðraður fyrir farsælan skipstjóraferil á Fiskideginum mikla á Dalvík síðastliðið sumar. Við settumst niður með Gunnari og seinni eiginkonu hans, Þórunni Alfreðsdóttur, á heimili þeirra hjóna á Rimasíðu 27a á Akureyri.

Gunnar fæddist á Dalvík 14. október 1940, sonur Ara Kristinssonar og Dórótheu Guðlaugsdóttir.

„Pabbi drukknaði 36 ára gamall. Þeir voru tveir á opinni trillu sem hét Hafbjörg. Þeir fóru í sjóinn hérna rétt utan við Dalvík 26. nóvember 1953. Þá var ég þrettán ára. Mamma stóð uppi með fjögur börn. Ég sjö árum eldri en það næstelsta. Börnin voru tveggja, þriggja, sjö og þrettán ára gömul. Ef ég man rétt efndi samfélagið á Dalvík til peningasamskota til að hjálpa fjölskyldunni sem skyndilega stóð uppi án fyrirvinnu. Sem barn lokaði ég á þennan atburð. Á þessum árum var það ekki lenska að ræða slíka hluti.“

Sjávarháski

Gunnar segir að sár eins og þessi grói aldrei fullkomlega. Og aðrir atburðir af sama toga áttu eftir að setja mark sitt á líf hans. 9. apríl 1963 gerði norðan stórhríð úti fyrir Norðurlandi. Dekkbátarnir Valur EA með tveimur mönnum og 9 smálesta Dalvíkurbáturinn Hafþór EA, með 5 mönnum, voru á sjó og fórust þeir báðir og allir sem um borð voru. Þetta var gríðarlegt reiðarslag fyrir lítið samfélag. Sem fyrr var lítið um þetta rætt meðal heimamanna. Morgunblaðið segir frá sjósköðunum í forsíðufrétt 10. apríl þetta ár. Þar kemur fram að óveðrið hafi komið frá Norður-Grænlandi. Ekki hafi verið búist við því fyrr en degi síðar. Klukkan níu um morguninn var blíðaskaparveður um allt land „en þremur tímum síðar var hríðarveggurinn kominn suður yfir Vestfirði.“

Gunnar var með frænda sínum á sjó á sama tíma á fjögurra tonna trillu. Þeir voru á svipuðum slóðum og bátarnir tveir fórust einmitt þegar óveðrið skall á.

„Það gerði bara skyndilega mannskaðaveður rétt fyrir hádegi. Við höfðum verið að berjast frá því klukkan 11 um morguninn og komumst loks til Hríseyjar klukkan sjö um kvöldið. Ég hef alltaf neitað því að einhver æðri máttarvöld hafi litið til með okkur. Við bara björguðum okkur. Þetta var barátta upp á líf og dauða. Við komumst sem sagt til Hríseyjar klukkan sjö að kvöldi 9. apríl en ekki til Dalvíkur fyrr en ellefta apríl. Það var grenjandi norðanstormur og stórhríð. Þarna var ég 22 ára gamall og frændi minn fimm árum eldri. Þetta voru því ekki öldungar í þessari trillu.“

Enn frekari áföll

Hann segir að helsti lærdómurinn sem hann hafi dregið af þessum raunum hafi verið sá að halda ró sinni. Oft hafi hann verið spurður hvort hann hafi beðið til guðs meðan hann barðist fyrir lífi sínu. Jafnan svaraði hann því svo að hann hefði haft allt annað við tímann að gera. Gunnari var innrætt kristin trú í æsku og stóð lengi framan af í þeirri vissu að hann væri trúaður. Lífið hafi hins vegar kennt honum að kenningin gangi ekki upp hvað hann varðar – að einhver æðri máttur stjórni öllu sem gerist.

Og áföllin áttu eftir að verða fleiri og jafnvel sárari. Gunnar átti þrjú börn úr fyrra hjónabandi en missti eldri son sinn, Ara Kristins Gunnarsson, af slysförum þegar hann kleif fjallið Pumori í Nepal 9. október 1991, þá þrítugur að aldri. Hann hefur ekki ennþá fundist.

Kaupfélagsstjóri eða jafnvel þingmaður

Á unglingsárunum stóð hugur Gunnars til annars en að verða sjómaður. Hann átti sér þann draum að verða læknir.

„Sem barn var ég farinn að skera upp dúkkur systur minnar. Ég þóttist var að lækna, skera upp og sauma. En það ekkert annað í stöðunni en að fara að vinna eftir að pabbi dó. Ég kláraði unglingaskólann á Dalvík og vann svo í kjötbúð KEA á Dalvík í tvö ár. Ég man að það fyrsta sem ég afgreiddi var ein gulrófa. Og alltaf var handskrifuð nóta fyrir öllu. Launin voru lág og sögðu lítið fyrir heimilið. Fyrir atbeina KEA bauðst mér svo skólavist í Samvinnuskólanum á Bifröst og vinna á sumrin hjá KEA. Eflaust var þetta hluti af samhjálpinni því ég var ekki nema þrettán ára. Hugsunin var því góð. Ég hef oft leitt hugann að því að hefði ég ekki hafnað þessu boði hefði ég hugsanlega orðið kaupfélagsstjóri einhvers staðar og jafnvel þingmaður fyrir Framsókn. En hvorki leyfðu aðstæður heima fyrir að ég tæki boðinu né heldur stefndi hugur minn í þessa átt. Ég hætti því hjá KEA og fór til sjós á síldveiðar fimmtán ára gamall. Báturinn var Hannes Hafstein EA, svokallaður Svíþjóðarbátur. Síldina sóttum við mest til Grímseyjar, Skagagrunn og austur á Langanes. Það var aldrei innfjarðarsíld. Uppgripin voru meiri en hjá KEA og hagur fjölskyldunnar vænkaðist eitthvað.“

Fimmtán ára varð Gunnar háseti á Hannesi Hafstein EA, einn af Svíþjóðarbátunum.  Mynd í eigu Gunnars Arasonar.
Fimmtán ára varð Gunnar háseti á Hannesi Hafstein EA, einn af Svíþjóðarbátunum. Mynd í eigu Gunnars Arasonar.

  • Fimmtán ára varð Gunnar háseti á Hannesi Hafstein EA, einn af Svíþjóðarbátunum.  Mynd í eigu Gunnars Arasonar.

Gunnar var á síldinni fram að hausti 1959, árið sem hann varð 19 ára gamall og innritaðist í Stýrimannaskólann. Fiskimannaprófið var tvær annir og var hægt að taka fyrri önnina á þriggja vikna námskeiði áður en seinni önnin hófst. Það gerði Gunnar. Hann lauk náminu á einum vetri og útskrifaðist vorið 1960. Um sumarið varð hann stýrimaður á Júlíusi Björnssyni EA á Dalvík á síldveiðum og línuveiðum um haustið.

„Á þessu árum voru bátarnir frá Dalvík gjarnan leigðir til fiskvinnslufyrirtækja á Suðurnesjum á vetrarvertíð, annað hvort með mannskap eða án. Ég stóð því uppi plásslaus um áramótin 1960/1961 því Júlíus var leigður suður á vetrarvertíðina. En suður fór ég og réði mig sem stýrimann á bát frá Akranesi sem ég kæri mig ekki um að nefna á nafn. Þetta var sú ömurlegasta vertíð sem ég hef upplifað. Við fengum varla í soðið og mannskapurinn var hörmulegur.“

Útgerð Aðalsteins Loftssonar

Hagur Gunnars vænkaðist þegar hann réði sig í framhaldinu sem stýrimann á Baldvin Þorvaldsson EA sem útgerð Aðalsteins Loftssonar á Dalvík gerði út. Á þessum árum var Dalvík um eitt þúsund manna pláss. Þar voru þrjár útgerðir; útgerð Aðalsteins Loftssonar, Egils Júlíussonar og Jóns Stefánssonar og hans bræðra, sem héldu öllu atvinnulífinu uppi. Allir létu þeir byggja báta á sama tíma; Svíþjóðarbátana, sem svo voru kallaðir; eikarbátar sem smíðaðir voru í Svíþjóð 1946 og komu til Dalvíkur skömmu síðar. Þetta voru 50 tonna bátar; Hannes Hafsteinn EA, þar sem Gunnar varð háseti sem fyrr segir fimmtán ára gamall, Bjarmi EA og Þorsteinn EA, nú ÞH. Þorsteinn er enn í drift og er elsta fiskiskipið í flota Íslendinga, gert út af útgerðarfélaginu Önundi á Raufarhöfn. Þetta þóttu mjög öflugir bátar og Gunnar man þann dag þegar þeir komu til Dalvíkur, þá sex ára gamall.

Gunnar átti eftir að verða samferða útgerð Aðalsteins Loftssonar um margra ára skeið því hann var einnig á gamla Lofti Baldvinssyni EA og nýja Lofti Baldvinssyni EA. 1963 var Baldvin Þorvaldsson leigður til Grindavíkur án áhafnar og fór Gunnar þá sem landformaður á Baldri EA, sem Aðalsteinn Loftsson átti einnig, og var leigður til Keflavíkur. Um vorið hafði Aðalsteinn Loftsson svo samband við Gunnar og kvaðst vilja ráða hann sem skipstjóra á Baldvin Þorvaldsson EA.

„Þú  verður að fiska“

„Ég var 22 ára og þetta kom mér verulega á óvart. Aðalsteinn barði í borðið og sagði: „En þú verður að fiska“. Ég fór með Baldvin fyrst á síld og svo á línuveiðar um haustið frá Dalvík. Ég hreyki mér stundum af því að það hefur aldrei fengist jafn stór línuróður á bát frá Dalvík og á Baldvin undir minni stjórn. Þarna réru menn alltaf á sömu slóðir; Grímsey og Skagagrunnið aðallega. Ég hugsaði með mér hvers vegna í ósköpunum ég ætti ekki að reyna fyrir mér á Growesbank sem er hóll fyrir norðan Grímsey. Það varð úr að prófa þetta og árangurinn lét ekki á sér standa. Við fengum 11 tonn af rígaþorski. Þá þótti fínt að ná 4-5 tonnum. Hóllinn var ekki stór svo við lögðum línuna í lykkjur eins og á trillunum og vorum alltaf upp á hólnum. Stímið að Grímsey tók fjórar klukkustundir frá Dalvík en sex klukkustundir á Growesbank. Við vorum því mun lengur en aðrir í róðrinum. Veiðin spurðist út og annar bátur fór að sækja á þessi mið. Í næsta túr fórum við því alla leið til Kolbeinseyjar og komum með sjö tonn þaðan.“

Í framhaldinu var farið suður til Keflavíkur á vertíð á Baldvin Þorvaldssyni. Aðalsteinn Loftsson, sem hélt til í Reykjavík yfir vetrarmánuðina, hafði í lok vertíðar samband við Gunnar og kvaðst vilja senda hann vestur á Patreksfjörð daginn eftir. Þar átti hann að taka við skipstjórn á Lofti Baldvinssyni af Finnboga Magnússyni, þekktum aflamanni, sem hafði látið smíða fyrir sig skip í Noregi, Helgu Guðmundsdóttur EA, og þurfti að komast út til að taka við skipinu.

„Ég hafði ekki einu sinni komið um borð í Loft Baldvinsson. Ég gerði það því að skilyrði að ég færi fyrst í einn róður með Finnboga. En það var þá ekki flug til Patreksfjarðar fyrr en eftir fjóra daga. Finnbogi var því löngu fallinn á tíma þegar ég kom vestur og menn voru að kveðja hann með rjómakökuveislu. Ég fór upp í brú og horfði fram eftir skipinu sem var helmingi stærra en önnur skip sem ég hafði kynnst. Það var norðaustan leiðindaveður þegar við lögðum úr höfn og innsiglingin í Patreksfirði er mjög þröng. Ég velti því fyrir mér hvernig í fjandanum ég ætti að snúa skipinu inni í höfninni. Ég kunni ekki á svona stórt skip. Þá datt mér í hug að nota gamalt ráð frá því ég var á trillunum sem er að „bakka í springinn“ sem svo var kallað. Við það fór framendinn frá bryggjunni, skipið snerist og ég komst út.“

Loftur Baldvinsson EA  á leið til hafnar fullhlaðinn. Mynd í eigu Gunnars Arasonar.
Loftur Baldvinsson EA á leið til hafnar fullhlaðinn. Mynd í eigu Gunnars Arasonar.

  • Loftur Baldvinsson EA  á leið til hafnar fullhlaðinn. Mynd í eigu Gunnars Arasonar.

Norðursjórinn

Gunnar var með Loft Baldvinsson EA 124 allt fram til 1968 þegar hann fór til Noregs og sótti nýtt skip með sama nafni sem Aðalsteinn Loftsson hafði látið smíða. Gunnar segir að þetta hafi verið framúrstefnulegt skip á sínum tíma. Það var 443 brúttótonn og stærsta nótaskip flotans. Það var líka útbúið fyrir togveiðar. Þegar heim var komið að hausti 1968 var síldin horfin. Útgerðinni var því ekki spáð miklu gengi með þetta miklar fjárfestingar á bakinu og óvissu um verkefni.

„Þá var tekin ákvörðun um að fara á síldveiðar í Norðursjó. Þar hófst fyrir alvöru ævintýrið okkar á Lofti Baldvinssyni. Við vorum þarna fimm ár í röð. Fórum á vorin og vorum fram í desember. Öll þessi ár vorum við með hæsta aflaverðmæti allra skipanna sem voru þarna á veiðum. Þá fyrst var farið að tala um verðmæti en ekki bara magn. Ég var með fínt skip og góða skipshöfn. Áhöfnin gekk vel frá aflanum og eftir tvær eða þrjár landanir í Hirtshals fór ég að taka eftir því að við fengum hærra verð en aðrir. Það var bara vegna þess að það var svo vel gengið frá aflanum.“

Þarna komst Gunnar í kynni við Niels Jensen sem var umboðsmaður fyrir Norges Ruten sem sá um ferjusiglingar milli Hirtshals og Kristiansand. Niels stofnaði svo sitt eigið fyrirtæki, Niels Jensen og Kompany, og gerðist umboðsmaður fyrir Íslendingana sem lönduðu í Hirtshals.  Niels er nýlega látinn. Hann var vel liðinn af þeim sem áttu í samskiptum við hann.

Á fimmta árinu í Norðursjónum var settur kvóti á síldveiðar Íslendinga í Norðursjó. Segir Gunnar að Danir og Færeyingar hafi séð til þess.

„Á sama tíma og við vorum reknir út fyrir línu var verið að semja um aukinn þorskkvóta fyrir Færeyinga innan íslenskrar lögsögu og þá bölvaði ég. Þetta var í sjávarútvegsráðherratíð Matthíasar Bjarnasonar. Segja má að Færeyingar hafi ekki alltaf verið okkur góðir frændur þegar kemur að veiðum.“

Ekki alltaf utan 12 mílnanna

Fyrsta árið eftir að kvóti hafði verið settur á veiðar Íslendinga þurfti Loftur Baldvinsson ekki nema fimm köst til að veiða allan sinn kvóta. Veiðunum var því sjálfhætt og haldið heim á Íslandsmið úti fyrir Austfjörðum og Suðurlandi til að veiða Íslandssíld. Hún var líka kvótasett og nú þurfti ekki nema tvö köst til að ná kvótanum. Yfir sumarið voru stundaðar loðnuveiðar og veturinn 1969, ísaveturinn mikla, var Loftur Baldvinsson líka á togveiðum úti fyrir Norðurlandi.

„Það er ekkert launungarmál að við vorum ekki alltaf utan 12 mílna landhelginnar á þeim árum sem ísinn var hvað mestur. Við komumst ekki utar og það var ekkert gert í því. Varðskipin komust ekki þangað og ég held að menn hafi bara horft fram hjá þessu því skipin komust ekkert annað. Ísröndin skammtaði okkur plássið.“

Hefurðu misst vitið?

Líf Gunnars tók nýja stefnu haustið 1978. Hann ákvað að hætta til sjós. Leiðin lá í útgerðardeild Tækniskóla Íslands og segir hann að margir hafi verið þeirrar skoðunar að þessi ákvörðun hans hafi verið til marks um að hann hafi misst vitið.

„Að hætta sem skipstjóri á einum aflahæsta bát flotans og fara í skóla 38 ára gamall þótti vægast sagt undarleg ákvörðun. En ég hafði fyrir löngu ákveðið að ég skyldi ekki enda sem hundgamall skipstjóri með lélegt skip og lélega áhöfn eins og ég hafði séð gerast hjá mörgum mínum kollegum,“ segir Gunnar sem útskrifaðist sem útgerðartæknir vorið 1979.

Hann fékk vinnu hjá Slippstöðinni á Akureyri, fyrst sem viðgerðarstjóri og síðar sem framleiðslustjóri. Þar starfaði hann í tíu ár. Samhliða störfum sínum hjá Slippstöðinni var hann formaður hafnarstjórnar Akureyrar í sex ár.  Þetta var góður tími og Gunnar naut sín í landi. 1989 missti hann starfið í miklum uppsögnum hjá Slippstöðinni á erfiðleikatímum. Lá þá leiðin til Akureyrarhafnar þar sem Gunnar var yfirhafnsögumaður það sem eftir var starfsferilsins í 20 ár. Gunnar var líka formaður Skipstjóra- og stýrimannafélags Norðurlands um árabil og sat í stjórn FSSÍ á sama tíma.

Þegar Gunnar hóf stöf hjá Akureyrarhöfn komu tíu til tólf skemmtiferðaskip inn Eyjafjörðinn á hverju ári. Um það leyti hóf Akureyrarhöfn að taka þátt í sýningum í Miami í Bandaríkjunum í því skyni að laða skemmtiferðaskip til Akureyrar. Gunnar var þar erindreki hafnarinnar. Þegar hann hætti störfum hjá Akureyrarhöfn árið 2010 voru komur skemmtiferðaskipa nálægt 50-60 á ári. Nú eru komurnar nær 150 á ári. Þegar hann lítur til baka yfir ferilinn er honum ofarlega í huga sú gríðarlega bylting sem hefur orðið í öllu sem tengist sjómennsku og í skipum. Þegar hann byrjaði sinn feril var ekki einu sinni skipstjórastóll í brúnni. Það var bara staðið. 22 ára gamall, vorið 1963, var verið að setja í Baldvin Þorvaldsson EA asdik tæki og nótablökk. Áður hafði nótin verið dregin inn á höndunum á síðunni um borð í nótabátinn. Það er því margt að minnast á löngum ferli, gleðistundir, sigra og sorgir.