Saman ætla þeir að veiða 460.715 tonn, sem er 58,91% af ráðlagðri veiði ársins sem nemur samtals 782.066 tonnum. Hlutur Norðmanna er 31,95% en Breta 26,96%. Samkomulagið felur síðan í sér að Norðmenn fá að veiða 135.141 tonn í breskri lögsögu, en í staðinn láta Norðmenn Bretum eftir 24.635 tonn af heildarkvótanum.
Eins og síðustu ár hefur ekkert samkomulag tekist um skiptingu veiðanna milli strandríkjanna við Norðaustur-Atlantshaf, sem veiða úr makrílstofninum. Ríkin hafa því einhliða ákveðið sinn kvóta.
Færeyingar segja þetta samkomulag Breta og Norðmanna vera nýmæli, því nú sé í fyrsta sinn verið að greiða fyrir með kvótahlutdeild fyrir aðgang að lögsögu annars ríkis. Í norska Fiskeribladet er haft eftir Jógvan Jespersen að Færeyingar sætti sig engan veginn við þetta fyrirkomulag.
Íslendingar miða við 16,5%
Íslensk stjórnvöld gáfu um miðjan maí út reglugerð um makrílveiðar ársins, þar sem leyfilegur heildarafli er ákveðinn 129.040 tonn, eða sem nemur 16,5% af heildarráðgjöfinni. Þetta er það hlutfall sem Íslendingar hafa miðað við að taka sér meðan ekki hefur náðst samkomulag um skiptingu veiðanna.