Bæjarráð Vestamannaeyja hefur falið Elliða Vignissyni, bæjarstjóra Vestmannaeyja, að vísa sölunni á útgerðarfélaginu Berg-Huginn til Samkeppniseftirlitsins (SKE) í þeim tilgangi að fá samkeppnisyfirvöld til að kanna forsendur þess hvort að salan stríði gegn samkeppnislögum, að því er fram kemur á vef Viðskiptablaðsins . Þá hefur bæjarráðið jafnframt falið bæjarstjóranum að stefna bæði seljanda og kaupanda til að virða mögulega forkaupsrétt sem sveitafélaginu kann að vera tryggður skv. lögum um stjórn fiskveiða.

Þetta var samþykkt á fundi bæjarráðs á þriðjudag en sem kunnugt er keypti Síldarvinnslan í Neskaupsstað allt hlutafé Berg-Hugins í lok ágúst sl.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku telur Vestmannaeyjabær að Samherji, stærsti einstaki hluthafinn í Síldarvinnslunni, og tengd félög eigi eftir kaupin rúmlega 17% hlut í aflaheimildum landsins sem er umfram leyfilegt hámark.