Þessa dagana er unnið að því í uppsjávarvinnslu HB Granda á Vopnafirði að koma upp aðstöðu til að frysta stærsta makrílinn sérstaklega, þ.e. makríl sem er 600 grömm og stærri, að því er Vilhjálmur Vilhjálmsson, deildarstjóri uppsjávardeildar HB Granda, segir í samtali við nýjustu Fiskifréttir. Áætlað er að þessi fjárfesting kosti rúmlega 90 milljónir króna.

Verulega hærra verð fæst fyrir stóra makrílinn sem er bæði seldur á markaði í Austur-Evrópu og á Japansmarkað. ,,Við gerum ráð fyrir því að um 3-4% af makrílnum sé 600 grömm eða stærri að meðaltali. Minna er um stóra makrílinn í byrjum en meira þegar líður á vertíðina,“ segir Vilhjálmur.

Fram kemur hjá Vilhjálmi að stóri makríllinn sé of þykkur fyrir hefðbundna plötufrysta. Því hafi verið brugðið á það ráð að kaupa svokallaðan blástursfrysti og byggja sérstakan frystiklefa fyrir hann.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.