Geir Zoëga væri varla skipstjóri á Polar Amaroq eða nokkru öðru skipi ef faðir hans hefði fengið að ráð um starfsval sonarins.
Frá þessu og mörgu fleiru segir Geir í jólablaði Fiskifrétta.
Faðir Geirs var verksmiðjustjóri í síldarverksmiðjunum á Siglufirði og bjó fjölskyldan þar uns Geir var þriggja eða fjögurra ára.
Með annan fótinn hjá afa við Sauðanesvita
„Þá fluttum við á Akureyri og þá var pabbi í Krossanesi. Ég var alltaf á bryggjunni með karlinum. Þar kynnist ég bátunum og þessu lífi,“ segir Geir. Afi hans hafi verið vitavörður við Sauðanesvita og þar hafi hann verið með annan fótinn á sumrin.
Geir fluttist síðan tólf ára á mölina fyrir sunnan. Um það leyti tók hann ákvörðun.
„Ég var búinn að ákveða mig tólf ára að ég ætlaði að verða sjómaður. Pabbi reyndi að ná því úr mér af því að það eru allir verkfræðingar í karllegginn. Þegar ég var í áttunda bekk sendi hann mig í loðnutúr á vetrarvertíðinni með Sigga Stísa, sem var skipstjóri á Erninum í áratugi og mjög frægur loðnuskipstjóri,“ segir Geir sem fór einn túr sem farþegi í fjóra eða fimm daga.
Svaf í káetu skipstjórans og ældi út í eitt
„Ég var svo sjóveikur að ég ældi allan tímann. Það var ekki til klefi fyrir mig þannig að ég þurfti að sofa í kojunni hjá Sigga skipstjóra og hann á bekknum. Svo þegar ég fór í land og var búinn að æla og æla og æla sagðist ég halda að ég yrði ekki sjómaður úr þessu. Þá sagði Siggi: Veistu það Geir, ég er búinn að vera sjómaður í fimmtíu ár, ég verð alltaf sjóveikur.“
Faðir Geirs hélt að með þessu væri hann búinn að ná sjómannsdraumnum úr syninum. En það var ekki raunin. Geir fór í Stýrimannaskólann beint eftir grunnskóla en þá var kennaraverkfall og hann flosnaði upp úr náminu.
„Ég asnaðist aðeins í vélvirkjun en þroskaðist nú fljótlega og fór beint á sjóinn,“ rifjar hann upp. Stýrimannaskólinn beið hins vegar á sínum stað.
Prufutúr varð að tveimur árum
„Guðmundur Þorbjörnsson í Gjögri réði mig einn túr til prufu á Hákoni gamla sem varð síðan Erika. Það var mesta furða hvernig gekk, ég var dálítið sjóveikur fyrsta sólarhringinn og svo bara búið,“ segir Geir sem reyndar hefur aldrei náð að hrista sjóveikina algerlega af sér. „Ég verð alltaf sjóveikur fyrsta sólarhringinn en það er bara í sólarhring.“
Geir var síðan í tvö ár á Hákoni. „Þá ákvað ég að þetta væri eitthvað fyrir mig og fór í Stýrimannaskólann og kláraði hann 2005.“ Hann var 22 ára þegar hann útskrifaðist.
Að sögn Geirs hafði hann leyst af sem stýrimaður þann tíma sem var í náminu. Hann fór aftur á Hákon eftir skólann og var þar í rúmt ár sem háseti.
Strákpjakkurinn í brúnni
„Þangað til Sveinn Ísaksson tekur við Áskeli - þá er Hákon orðinn að Áskeli - þá er ég fyrsti stýrimaður hjá Svenna Ísaks í tvö ár. Síðan kaupir Síldarvinnslan skipið og þá verð ég skipstjóri það sumar, 24 ára gamall,“ segir Geir.
Það er mjög óvenjulegt að menn verði skipstjórar á togurum svo ungir og Geir neitar því ekki.
„Ég var örugglega með þeim yngri en það gekk ljómandi vel,“ segir Geir sem kveður áhöfnina alveg hafa tekið mark á hinum unga skipstjóra. „Auðvitað var talað um helvítis strákpjakkinn en snýst þetta ekki alltaf um það að ef það eru laun og menn fiska þá breytist það með tímanum.“