Tæp tvö ár eru síðan Baldvin Njálsson GK, nýsmíði Nesfisks, kom til landsins. Hann undirgengst nú tveggja ára skoðun í Slippnum á Akureyri og verður botnhreinsaður og sinkaður. Auk þess verða gerðar umfangsmiklar breytingar á vinnsludekkinu, að sögn Tryggva Eiríkssonar sem er skipstjóri Baldvins Njálssonar ásamt Arnari Óskarssyni.

Hirða roð og sundmaga

„Við erum að skipta út flökunarvélinni og hausurunum sem er talsverð framkvæmd,“ segir Tryggvi.

Auk þess stendur til að hefja tilraun um borð í Baldvini Njálssyni að hirða roð sem áður hefur farið beina leið í hafið. Verið er að setja upp tvo vakúmtanka fyrir roðið sem hægt verður að blása úr inn í frysta. Roð er orðin eftirsóknarverð vara innanlands til framleiðslu á gelatíni og kollageni. Tvær slíkar verksmiðjur eru á landinu, þ.e. Marine Collagen í Grindavík, Langa ehf. í Vestmannaeyjum og innan tíðar á að hefjast framleiðsla hjá Foodsmart Nordic á Blönduósi.

150 kr. fyrir kílóið af sundmögum

„Við viljum að það verði þægilegt við þetta að eiga með því að sjúga því upp í vakúmtank og blása roðinu inn í tækin. Roð af einum þorski getur verið á bilinu 4,8-5,5% af heildarþyngd hans og það er því töluvert sem fellur til sem færi annars bara í hafið,“ segir Tryggvi.

Tryggvi Eiríksson skipstjóri.
Tryggvi Eiríksson skipstjóri.

Rúmar 100 krónur fást fyrir kílóið af þorskroði en lægra verð er fyrir roð af ýsu og ufsa.

„Við erum líka að búa okkur betri aðstöðu til þess að hirða sundmaga. Við gerðum þetta í sérstakri vél sem var ekki að koma nógu vel út. Þess vegna munum við handskera hryggina sem er fljótlegra en til þess þurfum við að útbúa aðstöðu. Sundmaginn eru svo frystur og það er ágætur markaður fyrir hann í Kína. Þannig ætlum við að fullnýta það sem kemur um borð og auka verðmætin,“ segir Tryggvi.

Afurð gegn kyndeyfð

150 krónur fást fyrir kílóið af sundmögum þannig að það er eftir talsverðu að slægjast jafnt fyrir útgerðina og áhafnir skipsins. Afurðin er eftirsótt í Kína þar sem hún þykir allra meina bót við kyndeyfð. Hausinn er líka frystur um borð og fer að mestu leyti í þurrkun í Sandgerði og víðar og verður að skreiðargómsæti fyrir Nígeríumarkað.

Tryggvi segir að stefnt sé að því að halda á veiðar núna í síðustu viku september.