Adolf Guðmundsson var endurkjörinn formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna á aðalfundi samtakanna í síðustu viku. Hér á eftir fara ályktanir fundarins.
Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða
Aðalfundur LÍÚ haldinn í Reykjavík 27. og 28. október 2011, skorar á stjórnvöld að ganga nú þegar til samstarfs við útvegsmenn um framtíðarskipulag fiskveiðistjórnunar á Íslandi. Mikilvægt er að festa komist á varðandi starfsskilyrði sjávarútvegsins í stað þeirrar óvissu sem nú ríkir. Til að hámarka afrakstur þjóðarinnar af nýtingu fiskistofnanna verður að tryggja þá langtímahugsun sem hefur skilað íslenskum sjávarútvegi í fremstu röð. Það verður best gert með því að byggja stjórn fiskveiða áfram á aflamarkskerfinu.
Dragnótaveiðar
Aðalfundur LÍÚ haldinn í Reykjavík 27. og 28. október 2011 skorar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurskoða stefnu sína varðandi vistvænar strandveiðar með dragnót. Fjölda veiðisvæða hefur verið lokað án þess að nokkur vísindaleg rök séu þar að baki.
Makrílveiðar
Aðalfundur LÍÚ haldinn í Reykjavík 27.-28. október 2011 skorar á sjávarútvegsráðherra að breyta reglum um makrílveiðar í flotvörpu þannig að útgerðum verði gert kleift að veiða makríl allt í kringum landið meðal annars til að auka landvinnslu makríls. Veitt verði leyfi til afmarkaðra veiða á þeim svæðum sem nú eru lokuð. Veiðarnar fari fram í samráði við Hafrannsóknastofnunina.
Vinnubrögð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins
Aðalfundur LÍÚ haldinn í Reykjavík, 27. og 28. október 2011, harmar ófagleg vinnubrögð og samráðsleysi varðandi útgáfu reglugerða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Reglugerðir eru oft settar með of stuttum fyrirvara, óskýrar og án samráðs við þá sem þurfa að vinna eftir þeim. Vinnubrögðin valda miklum kostnaði, óhagræði og í verstu tilvikum eru ákvæði reglugerðanna óframkvæmanleg.
Útflutningsálag
Aðalfundur LÍÚ haldinn í Reykjavík 27.-28. október 2011 skorar á sjávarútvegsráðherra að afnema útflutningsálag við útflutning ísfisks. Álagið felur í sér mismunum á milli útgerða eftir því hvernig þær ráðstafa aflanum. Útflutningsálagið er viðskiptahindrun og gengur í berhögg við EES samninginn um fríverslun með sjávarafurðir til aðildarríkja ESB.
Landhelgisgæslan
Aðalfundur LÍÚ haldinn í Reykjavík 27. og 28. október 2011, fagnar komu varðskipsins Þórs til landsins. Jafnframt skorar aðalfundurinn á stjórnvöld að efla starfsemi Landhelgisgæslunnar, þannig að hún geti áfram sinnt mikilvægu öryggishlutverki fyrir íslenska sjómenn. Þar er rekstur öflugrar þyrlusveitar afar dýrmætur.
Slægingarstuðull
Aðalfundur LÍÚ haldinn í Reykjavík 27. og 28. október 2011 beinir því til sjávarútvegsráðherra að ákvæði um slægingarstuðla verði leiðrétt og fyrirkomulag vigtunar á óslægðum fiski verði lagað að aðstæðum allra fiskvinnslufyrirtækja. Núverandi slægingarstuðull getur ekki endurspeglað þann breytileika sem er í slóghlutfalli. Ákvæði um heilvigtun á óslægðum fiski, bæði fyrir og eftir slægingu er alltof íþyngjandi fyrir lítil fiskvinnslufyrirtæki og þarf að leita einfaldari lausna.