Fjöldi smærri línubáta víða af landinu gera út frá Norðfirði á sumrin. Núna í maímánuði byrjuðu bátarnir að tínast austur.  Alls eru komnir 6 bátar og eru þeir frá Sandgerði, Garði, Siglufirði og Eskifirði. Hafa bátarnir verið að afla vel og sem dæmi lönduðu þeir samtals 50 tonnum sl. miðvikudag, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar í Neskaupstað .

Fram kemur að í fyrra fiskaði Vonin frá Sandgerði mest þessara báta en hún hóf veiðar í maí-júní og reri í svonefnda Gullkistu sem er í norðanverðu Seyðisfjarðardýpi, 30-40 mílur frá landi. Vonin var á veiðum alveg fram í desember og afli hennar á þessum tíma var 494 tonn. Næstaflahæsti báturinn var síðan Hafdís frá Eskifirði með 440 tonn. Í heildina lönduðu yfirbyggðu línubátarnir 2400 tonnum af góðum þorski í Neskaupstað á síðasta ári.

Forsaga þessa máls er sú að sumarið 2011 komu tveir yfirbyggðir línubátar til Neskaupstaðar og hófu að gera út þaðan. Þessir aðkomubátar öfluðu vel og aflinn var stór og góður þorskur og meðafli lítill. Árangur þessara báta spurðist út og í fyrrasumar komu einir 15 bátar af þessari gerð til Neskaupstaðar og reru þaðan, þar af 8-10 sem gerðu þaðan út  um lengri tíma. Þessir bátar komu frá Sandgerði, Garði, Siglufirði, Grindavík, Eskifirði og Húsavík.