Aðgerðasinnar á vegum Sea Shephard voru handteknir fyrir að trufla hóp hvítra höfrunga úti fyrir Færeyjum, að því er fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu lögmanns Færeyja.
Þegar sást til hjarðar hvítra höfrunga úti fyrir þorpinu Hvítanesi, skammt frá Þórshöfn, ákváðu yfirvöld á sviði hvala- og höfrungaveiða, að á grundvelli ástands stofnsins, skyldu höfrungarnir látnir óáreittir. Í tilkynningu lögmannsins segir að þrír aðgerðasinnar Sea Shephard hafi virt bannið að vettugi og stýrt hraðbát sínum á talsverðri siglingu í kringum höfrungahjörðina og inn á milli dýranna, sem hræddi þau að ónauðsynju.
Þegar lögreglu bar að flýðu aðgerðasinnarnir og neituðu að stöðva farkost sinn. Þeir voru þó að endingu handteknir og hafa verið ákærðir fyrir brot á lögum um dýravernd og fyrir að sinna ekki tilmælum lögreglu.
Aðgerðasinnarnir hafa nú verið leystir úr haldi og hefur þeim verið gert að greiða fjársektir.
Hvítir höfrungar, (Lagenorhynchus acutus), eru algengir í kringum Færeyjar og eru stundum veiddir eins og grindhvalir og nýttir til manneldis. Reka verður höfrungana og slátra þeim í samræmi við sömu reglugerð og gildir um grindhvaladráp í Færeyjum.