Minnkandi línuívilnun í ýsu og skerðing ýsukvótans er aðför að Bolungarvík, sagði Jakob Valgeir Flosason, framkvæmdastjóri Jakobs Valgeirs ehf. í Bolungarvík í samtali við RÚV, en fyrirtækið sagði upp 17 manns í síðustu viku vegna þeirra á meðal áhöfninni á Hálfdáni Einarssyni ÍS.
„Þessi mikli niðurskurður á ýsu og breyting á línuívilnun gera það að verkum að við þurfum að hagræða í rekstrinum. Við erum að segja upp áhöfn á einum bát til þess að bregðast við vandamálinu. Það hefur verið mjög erfitt fyrir okkur að ná í ýsukvóta og við þurfum að minnka sóknina í ýsu,“ sagði Jakob Valgeir.
Í fréttum RÚV var sagt að á fiskveiðiárinu 2012-2013 hefðu bátar frá Bolungarvík fengið 15% af línuívilnun, eða rúm 850 tonn. „Mér finnst þetta náttúrulega bara aðför að Bolungarvík. Við höfum verið að vinna eftir leikreglum sem eru almennar, ekkert verið að fá neina byggðakvóta sem heitið getur en byggðarlögin í kring hafa verið að fá mikið af byggðakvótum. Á sama tíma er verið að skera niður línuívilnunina,“ sagði Jakob Valgeir.
Sjá nánar á vef RÚV.